Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stærsti dagur bólusetninga til þessa og allt gengið vel

27.04.2021 - 13:36
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Um sex þúsund manns verða bólusettir í Laugardalshöll í dag. Alls er gert ráð fyrir að um 25 þúsund skammtar af bóluefni verði gefnir á landinu í þessari viku og hafa ekki verið fleiri frá upphafi.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði í hádegisfréttum að allt hafi gengið vel til þessa.

„Þetta hefur gengið bara mjög vel. Fólk mætir tímanlega, er vel undirbúið og þetta gengur það hratt að það er engin biðröð. Fólk er bara í göngutúr hérna inn og í gegn. Það eru allir mjög þakklátir og ánægðir með að það sé komið að þessu,“ sagði Sigríður Dóra við Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamann í hádegisfréttum útvarps.

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma er bólusett með Pfizer í Laugardalshöll í dag og síðan verður bólusett með AstraZeneca á morgun. Þá er reiknað með um níu þúsund manns. Enn er svo verið að skipuleggja fimmtudaginn en enn er óvíst hversu margir verða boðaðir þá, en hann verður einnig stór.

Það var skiljanlega líf og fjör þegar fréttastofa leit við í Laugardalshöll í morgun, eins og sjá má á myndskeiðinu hér að ofan.