Góðu myndirnar eru í vondu veðrunum

Mynd: Menningin / RÚV

Góðu myndirnar eru í vondu veðrunum

27.04.2021 - 18:00

Höfundar

„Til þess að gera vel, þetta líf, þá þarf maður að leggja svolítið mikið á sig,“ segir RAX, en sýning hans, Þar sem heimurinn bráðnar stendur nú yfir.

Sýningin er í Listasafni Reykjavíkur og samanstendur af nýjum myndum í bland við eldri. Eins og ljósmyndarans er von og vísa eru jöklar áberandi, landslag sem kalla mætti hverfandi. „Ég ólst upp undir jöklunum og sá þá hopa, þó maður væri ekkert að hugsa um einhverjar breytingar. Þeir hafa verið minni áður og stærri. Þetta er partur af þeim fasa sem jörðin er í. En mér finnst mikilvægt að dókúmentera og eiga allt þetta líf, bæði náttúruna og mannlífið,“ segir RAX. 

Predikar ekki

Sýningarstjóri er Einar Geir Ingvarsson sem hefur unnið með Ragnari síðan 2014. Mikil fjölbreytni er ríkjandi í myndum sýningarinnar að hans sögn. „Ég held að fólk sjái allavega eitthvað sem það sér ekki oft. Ég vona að það hreyfi við því en Ragnar vill ekki vera að predika, hann vill ekki vera að segja fólki hvað er að heldur einfaldlega beina linsunni sinni að því og leyfa fólki að dæma sjálft. Það er aldrei sama myndin sem fólk heillast af. Hér er ótrúlega fjöbreyttur myndheimur, þótt þú sjáir mjög skýrt að þarna er á ferðinni mynd eftir Ragnar Axelsson þá hefur hann rosalega fjölbreyttan stíl í sjálfu sér.“

„Þetta var rugl“

Ragnar kemst reglulega í háskalegar aðstæður í sínum störfum, sem er að hans mati hvati í sjálfu sér. „Þetta er svona eins og segulstál sem togar í mann. Ég lít ekkert endilega þannig á að maður sér í hættu, maður passar sig og lærir inn á hverjar aðstæður. Auðvitað hefur maður lent í öllu mögulegu sem maður kannski vildi ekki gera í dag, ég myndi ekki senda krakkana mína í þetta en ég leit aldrei svo á að ég hafi verið í hættu. Auðvitað var ég oft hræddur og leit til baka og hugsa „þetta var rugl“ en þetta er einhver bilun held ég. Til þess að gera vel, þetta líf, þá þarf maður að leggja svolítið mikið á sig. Þú þarft að fara í vondu veðrin, stilla þig inn á að vera nógu vel búinn til að lifa þetta af. Ég passa mig mjög vel í því. Svo klikkar það alltaf, ég er náttúrulega búinn að frjósa svo oft að ég hef enga tilfinningu í höndunum og svona, en það kemur. Maður nær góðum myndum með því að vera í vondu veðrunum,“ segir hann

Mynd með færslu
 Mynd: RAX

Sýningin stendur til 9. maí. Nánari upplýsingar má finna hér.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Rax tilnefndur fyrir sleðahundamyndir

Menningarefni

„Þetta eru myndir sem ég sýni engum“