Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fólk fer ekki aftast í röðina þó að það mæti ekki

27.04.2021 - 21:46
Mynd: RÚV / RÚV
Hugsanlegt er að karlar yngri en 55 ára verði bólusettir með bóluefni AstraZeneca. Sérfræðingar mæla með því að konur undir 55 ára séu ekki bólusettar með því bóluefni, þar sem sjaldgæf aukaverkun þess sé að auknar líkur séu á blóðtappamyndun. Hún segir að fólk tapi ekki rétti til bólusetningar þó það mæti ekki, en það geti ekki fengið aðra tegund en það fær úthlutað.

Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttir barnasmitsjúkdómalækni í Kastljósi í kvöld. Hún segir að það sé vegna þess að konur undir 55 ára aldri eru almennt líklegri en karlar á þeim aldri til að fá blóðtappa. 

„Af því að við vitum ekki nákvæmlega hver er orsök þessara blóðtappa , þó við vitum hvað kemur þeim af stað, þá vitum við ekki hvað það er við bóluefnið sem kemur þeim af stað þá ætlum við að fara mjög varlega og fara að ráðum blóðmeinafræðinganna í þessu“ segir Kamilla.

Mánuður má líða á milli bólusetninga með bóluefni AstraZeneca, en mælt er með því að þrír mánuðir líði á milli fyrri og seinni bólusetningar. Með því að bíða lengur fæst betri svörun.

„Fyrri bólusetningin er mjög álíka virk, samkvæmt mótefnamælingum, eins og einn skammtur af Jansen, og það bóluefni er með markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni“ segir Kamilla.

Þeir sem fá AstraZeneca ekki annars flokks borgarar

Hún segir að bóluefni AstraZeneca sé ekki annars flokks. Orðrómur um að það sé annars flokks hafi komið til vegna flækjustigs í rannsóknum fyrirtækisins, þar sem það var fyrst ætlað sem eins skammts bóluefni, en síðar rannsakað sem tveggja skammta bóluefni.

„Þessar rannsóknir sem eru gerðar í raunheimum þar sem verið er að bólusetja á sama stað, sambærilega einstaklinga, þar sem er jafnmikið smit í gangi hjá þeim sem fá AstraZeneca og Pfizer bóluefni, þá er í rauninni ekki munur á bóluefninu,“ segir Kamilla.

Hún segir að fólk missi ekki réttinn til bólusetningar þó að það mæti ekki í bólusetningu þegar það fær boð. Það sé þó ekki í boði að fá aðrar tegundir. 

„Það er í rauninni ekki þannig. Ef þú ert búinn að fá strikamerki þá gildir það áfram, það gildir hins vegar fyrir sama bóluefni og upphaflega boðið gekk út á,“ segir Kamilla.

Geyma Pfizer fyrir unga fólkið

Bóluefni Jansen ætti að fara í notkun í þessari viku. Það verður notað fyrir fólk frá 18 ára aldri. Það verður notað fyrir hvern sem er, en til byrja með verður fyrir aldurshópa sem erfitt getur reynst að fá í seinni bólusetningu.  Bóluefni Pfizer er eina bóluefnið sem skráð er til notkunar hjá fólki frá 16 ára aldri og því verður því haldið sérstaklega til haga fyrir yngra fólk og skömmtum verður haldið eftir fyrir þann hóp þegar fram líða stundir.

„Við munum nota það fyrir alla sem eru 16 og 17 ára. En svo eftir það er hægt að nota önnur. Það bóluefni erum við að nota fyrir meirihlutann eins og er, af því að það var fyrsta efnið sem kom og þar eru ekki nema 3 vikur á milli, en það má líða lengri tími“ segir Kamilla. 

Hún býst við því að bólusetningar við Kórónuveirunni geti orðið hluti af almennum bólusetningum hjá börnum í framtíðinni.

„Það er alveg hugsanlegt, það er ekki víst. Við bólusetjum ekki við inflúensu hér á þeim aldri en það eru sumir sem gera það. Og það er alveg möguleiki að þetta verði hluti af almennum bólusetningum í framtíðinni,“

Finnst þér það líklegt?

„Já, nokkuð, en það gæti alveg verið að veiran hverfi og verði bara enn eitt kvefið, en hún er ekki á leiðinni þangað eins og er,“ segir Kamilla að lokum.

Kastljós má sjá hér að ofan.