Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldgosið síðasta sólarhringinn – aukin sprengivirkni

27.04.2021 - 15:07
Mynd: RÚV / RÚV
Það hefur verið mun meiri sprengivirkni í eldstöðinni við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga síðan í nótt. „Þetta er mjög mikil breyting á goshegðuninni en spurningin er hvort þetta sé líka að gefa til kynna breytingu á framleiðninni,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, við fréttastofu í dag.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá breytinguna úr vefmyndavél RÚV á Langhóli sem horfir yfir Geldingadali síðastliðinn sólarhring. Þarna má glögglega sjá þegar sprengivirknin eykst um miðnætti í gær.

Kvikustrókarnir spýtast nú hátt í 50 metra upp í loftið, samanborið við þá 10 til 15 metra sem kvikan hefur spýst hingað til.

Aðeins hefur dregið úr virkni í öðrum gígum. „Þetta getur líka þýtt það að virknin sé farin að safnast meira saman á eitt gígop.“ Vísindamenn rannsaka nýjustu vendingar í gosinu í dag, bæði á vettvangi og með því að fara yfir gögn úr mælum.

„Þetta er nokkuð stöðugur kvikustrókur og sá langhæsti sem hefur sést í þessu gosi,“ segir Þorvaldur.