Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Eitt af stóru viðfangsefnunum sem blasa við okkur“

Mynd: RÚV / RÚV
Það er alvarlegt mál hversu víða örplast er að finna, og nauðsynlegt að herða enn róðurinn í baráttunni gegn plastmengun. Þetta segir umhverfisráðherra. Hann vill að gerðir verði alþjóðlegir samningar til að berjast gegn því að plast berist í heimshöfin.

Örplast er að finna í Vatnajökli, samkvæmt nýrri rannsókn sem sagt var frá í fréttum í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem staðfesting hefur fengist á því að örplast sé í íslenskum jökli. Vísindamenn telja í ljósi þess líklegt að örplast sé einnig að finna í öllum öðrum jöklum hér á landi.

„Þetta er náttúrulega alvarlegt mál, hvað örplastið er að finnast víða,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra. „Og núna erum við þá að fá fréttir af því í Vatnajökli og sennilega öllum jöklunum okkar. Sem segir okkur bara það að við þurfum að herða róðurinn ennþá meira þegar kemur að plastmengun. Þar hef ég talað fyrir alþjóðlegum samningi til þess að takast á við plastmengun sem er meðal annars að berast í hafið.“

Plokkið hjálpar

Þá segir Guðmundur Ingi að nauðsynlegt sé að draga úr notkun á óþarfa plasti til þess að minna af því sleppi út í náttúruna. Verkefni á borð við stóra plokkdaginn sé hins vegar mikilvægt í baráttunni gegn plastmengun. 

„Sem er einmitt risastórt vitundarvakningarverkefni. Það skiptir máli að takmarka allt það rusl sem annars hefði farið ef ekki væri fyrir plokkarana okkar.“

Guðmundur Ingi segir að stöðugt sé meira vitað um örplast og áhrif þess. Örplast hafi meðal annars verið á dagskrá Norðurskautsráðsins þar sem Ísland hefur gegnt formennsku í tvö ár.

„Við erum búin að setja fram aðgerðaáætlun um varnir gegn plastmengun. Og þetta er bara eitt af stóru viðfangsefnunum sem blasa við okkur á næstu árum og áratugum.“