Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Einkenni þess að við búum í þöggunarmenningu“

27.04.2021 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þingmenn Pírata lýstu áhyggjum af stöðu fjölmiðlafrelsis hér á landi og tjáningarfrelsis hér á landi á Alþingi í dag. Bæði ríki og Alþingi þurfi að sýna að þau skilji mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar, fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi.

Þrír þingmenn stjórnarandstöðu gerðu siðareglur, tjáningarfrelsi og áhrifavald fjármagns að umtalsefni í ræðum sínum undir fundarliðnum Störf þingsins. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það grafaalvarlegt að seðlabankastjóri telji Íslandi stjórnað af hagsmunahópum og að ástæða sé til að kalla eftir vernd starfsfólks undan ásókn stórfyrirtækja. Forsætisráðherra hefði að hennar mati mátt stíga fastar til varnar opinberum starfsmönnum „og verja þá ágangi stórfyrirtækis sem svífst einskis. Á sama tíma og Samherji herjar miskunnarlaust á fjölmiðlafólk Ríkisútvarpsins með stöðugum áróðri svo að fólki ofbýður, kemur ákall til okkar, löggjafans, frá seðlabankastjóra um að bankinn sé varnarlaus gagnvart ágangi í garð starfsfólks hans.“   Ráðamenn þurfi að gefa skýr skilaboð um að breytinga sé þörf. 

Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, talaði á svipuðum nótum.  „Herferð Samherja, sem hefur staðið síðustu mánuði og nú síðustu vikur, með ofsafengnum árásum að heiðri og mannorði Helga Seljan hefur haft þau áhrif að Ísland hefur færst niður um sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi landa, sem samtökin Blaðamenn án landamæra birtu fyrir stuttu.“ 

Tjáningarfrelsi og peningar 

Olga spurði hvað ríkisstjórnin hygðist gera í því að fyrirtæki sem hefði verið falið að nýta auðlindina nýtti auðlindarentuna í herferðir gegn fjölmiðlum í landinu.  Hún sagði að skoða þyrfti gildismat ríkisstjórnarinnar ef hún teldi að leggja ætti að jöfnu tjáningarfrelsi stórfyrirtækis við frelsi fjölmiðla til að upplýsa almenning um spillingu. 

„Eða er það svo að við ætlum að virða tjáningarfrelsi þeirra sem eiga peninga meira en þeirra sem sjá til þess að svipta hulunni af spillingu?“ Er ríkisstjórnin hrædd við fjölmiðla eða er hún hrædd við fjármagnsöflin? Spurði Olga Margét  jafnframt. Ríki og Alþingi þurfi að sýna að þau skilji mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi, fjölmiðlafrelsi og ekki síst tjáningarfrelsi. 

Misheppnaðar siðareglur

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var sá síðasti í fundarliðnum til að ræða þessi mál og sagði þingmenn og Ríkisútvarpið búa við misheppnaðar siðareglur. Þingmenn búi við þá stöðu að siðareglurnar sem þeir hafi sett sér í þeirri von að þær myndu bæta störf þeirra, skýli meiri hlutanum fyrir aðhaldi minni hlutans.  Samherji hafi kært fréttamanninn Helga Seljan fyrir að tjá skoðanir sínar á almannafæri. „Ekki fyrir það að segja ósatt, ekki fyrir óvönduð vinnubrögð í sínum fréttaflutningi heldur fyrir það eitt að tjá sig.“ 

Bæði dæmin telur Helgi Hrafn til merkis um þöggunarmenningu hér á landi.

„Hún er svo rótgróin og svo djúpstæð að við sjáum hana ekki einu sinni, klöppum okkur jafnvel á bakið fyrir að búa í samfélagi þar sem tjáningarfrelsið sé svo mikils virt. Svo er ekki og það sanna dæmin.“