Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Aðskilnaðarstefna veruleiki milljóna Palestínumanna“

Mynd: AP / AP
Ísraelsk stjórnvöld eru sek um aðskilnaðarstefnu og ofsóknir gagnvart Palestínumönnum, samkvæmt nýrri skýrslu Human Rights Watch. Stjórnvöld í Ísrael segja skýrsluna uppspuna.

Þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðleg mannréttindasamtök af þessari stærðargráðu nota hreint út orðið apartheid eða aðskilnaðarstefna um framgang ísraelskra stjórnvalda. „Þótt stór hluti jarðarbúa láti sem 54 ára hernám Ísraels sé tímabundið vandamál sem 30 ára gamalt friðarferli lagi fljótt hefur veruleiki aðskilnaðarstefnu og ofsókna aukist og versnað,“ segir Omar Shakir yfirmaður Human Rights Watch í Ísrael og Palestínu. 

Bera saman veruleika fólks á sama svæði

Skýrslan er löng, yfir 200 blaðsíður. Í henni er farið yfir stefnu og meðferð stjórnvalda í Ísrael á Palestínumönnum. Þetta er svo borið saman við framgöngu gagnvart ísraelskum gyðingum búsettum á sama landsvæði.

Samtökin komast að þeirri niðurstöðu að það sé vilji stjórnvalda að ísraelskir gyðingar ráði yfir Palestínumönnum, hvort sem það er innan Ísrael, á Vesturbakkanum eða Gaza. Þá séu skýr merki um kerfisbundna kúgun og ómannúðlega meðferð - og þessi þrjú atriði saman séu ekkert annað en aðskilnaðarstefna á borð við þá sem var við lýði í Suður-Afríku. „Staðan í dag er slík að hvaða lausn sem þú trúir á, eitt ríki, tvö ríki eða sambandsríki, er áríðandi að heimurinn átti sig á veruleikanum eins og hann er og setji í gildi þau mannréttindaog ábyrgðarúrræði sem þörf er á til að binda enda á þetta alvarlega ástand. Aðskilnaðarstefna er veruleiki milljóna Palestínumanna í dag, “ segir Omar Shakir.

Þessu mótmæla ísraelsk stjórnvöld. Þeim ofbýður málflutningur mannréttindasamtakanna svo mjög að þau ráku Omar Shakir úr landi í nóvember 2019. Þau hafna skýrslunni alfarið, segja hana uppspuna og að samtökin hafi lengi stundað and-ísraelskan áróður.