Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

55 börn í umsjón COVID göngudeildar

27.04.2021 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Tveir COVID sjúklingar voru útskrifaðir af Landspítalanum í dag og eru því tveir inniliggjandi núna. Óvenju mörg börn eru í umsjá COVID göngudeildar spítalans, en ástandið er vel viðráðanlegt að sögn eins yfirmanns deildarinnar því veikindin eru ekki mjög alvarleg.

Runólfur Pálsson einn af yfirmönnum COVID göngudeildar Landspítalans segir að í umsjón göngudeildarinnar séu nú um 180 manns, allt einstaklingar með virka sýkingu.

„Þar af eru 55, að ég held, börn og við höfum umsjón með öllum þessum einstaklingum en börnin njóta þjónustu, ef þau þurfa, á Barnaspítala Hringsins og eru í raun í eftirltii þar.“

Runólfur segir að þessi fjöldi barna sé með því allra mesta sem verið hefur í faraldrinum. Þjónustan við börnin sé í raun sú sama og við fullorðna, það er að segja að vakta framvindu veikindanna. Heilt yfir séu þeir sem eru í umsjón göngudeildarinnar núna með frekar væg einkenni og veikindin ekki alvarleg.

„Og börnin hafa heilt yfir sloppið nokkuð vel frá þessum veikindum þó að einn og einn einstaklingur sé veikari en gengur og gerist.

Runólfur segir að einnig sé boðið upp á tafarlausa þjónustu ef á þarf að halda og fólk hafi beinan síma bæði á göngudeildina og eins á barnaspítalann. Aldursdreifing barnanna sé allt frá leikskólaaldri upp í sautján, átján ára.

Eru einhver börn inniliggjandi núna vegna COVID?

„Nei. Það voru fjórir fullorðnir inniliggjandi í morgun í Fossvogi, en tveir hafa verið útskrifaðir, að ég held, þannig að þeir eru núna tveir.“

Líðan þeirra er ágæt að sögn Runólfs og þeir ekki á gjörgæsludeild. Hann segir að þrátt fyrir að fjöldinn hafi aukist undanfarnar tvær vikur sé ástandið vel viðráðanlegt, ekki síst þar sem ekki er um alvarleg veikindi að ræða.