Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 100 manns á árshátíð á Austurlandi á föstudagskvöld

26.04.2021 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Um hundrað manns komu saman á árshátíð á Austurlandi á föstudagskvöld og málið er nú á borði ákærusviðs lögreglunnar vegna hugsanlegs brots á reglum um samkomutakmarkanir. Samkomunni var lokið þegar lögreglan á Austurlandi fékk ábendingu um meint sóttvarnabrot á samkomunni og rannsókn hófst daginn eftir.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir í samtali við fréttastofu að viðburðurinn hafi verið haldinn í þeirri trú að fjöldinn væri innan marka, þar sem viðburðahaldarar hafi talið hann flokkast sem sviðslistaviðburð. Því vilji lögregla árétta sérstaklega þær sóttvarnareglur sem eru í gildi og hvetja til sérstakrar gætni þegar kemur að samkomum. Hægt sé að senda fyrirspurn til aðgerðastjórnar almannavarnanefndar á Austurlandi ef vafi leikur á túlkun sóttvarnareglna. Ekki hefur verið gefið upp hvar á Austurlandi árshátíðin var haldin. 

Rannsókn á viðburðinum hófst á laugardag og telst nú lokið. Málið verður sent ákærusviði embættisins sem tekur ákvörðun um framhaldið. Sektir fyrir brot á reglugerð nr. 440/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsótta sem gerðar eru forsvarsmönnum /skipuleggjendum samkomu eru 250-500 þúsund samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara.

Uppfært 18:18: Í frétt á vef Vísis kemur fram að árshátíðin hafi verið á vegum Verkmenntaskólans á Austurlandi. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV