Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er ákveðin sýki að safna bókum“

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Það er ákveðin sýki að safna bókum“

26.04.2021 - 13:03

Höfundar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er í deyjandi stétt bókasafnara. „Það gefur manni töluvert ef þú heldur á frumútgáfum sem mögulega skáldið sjálft hefur handleikið,“ segir hann. Nýjasti fengurinn er sjaldgæfur árgangur tímarits Benedikts Gröndals, sem þótti betur hæfa kömrum en til lesturs á sínum tíma.

Ásgeir Jónsson er forfallinn bókasafnari og á dögunum vakti hann athygli á tímariti sem Benedikt Gröndal gaf út á nítjándu öld og þótti alls ekki fínn pappír. „Ef einhverju tímariti var hafnað af íslensku þjóðinni þá er það Gefn sem Benedikt Gröndal gaf út í Kaupmannahöfn árin 1870-74,“ skrifaði hann á Facebook-síðu sían um daginn. Gefn hvarf „ofan í kamra landsmanna“ og er nú eitt sjaldgæfasta tímarit 19. aldar, skrifaði hann enn fremur.

Taldi sig geta miðlað málum milli Íslands og Danmerkur

Benedikt fékk styrk frá Dönum, á meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn, til að gefa tímaritið út þegar sjálfstæðisdeilur Íslands og Danmerkur voru í hámæli. „Hann taldi sig geta miðlað málum í sjálfstæðisbaráttunni sem endaði mjög illa fyrir hann. Hann fékk alla upp á móti sér sem varð til þess að tímaritinu var hafnað,“ segir Ásgeir í samtali við Eirík Guðmundsson í Víðsjá á Rás 1.

Ásgeir segir að í raun sé ekki hægt að lýsa Gefn sem tímariti, þar sem allar greinarnar voru eftir Benedikt sjálfan. „Hann birti ritgerðir sem hann langaði að skrifa og ég held að það hafi ekki endilega verið það sem fólk hafði áhuga á.“ Benedikt uppskar eftir því og fékk tímaritið óblíðar móttökur í blöðum. Bestu umsögnina fékk það í Þjóðólfi, segir Ásgeir, þar sem stóð að ritið væri „pólitisk, poetisk ærsl og skrípalæti.“

Bækurnar finna safnarana

Alls komu út fimm árgangar af tímaritinu og einsetti Ásgeir sér að komast yfir þá alla. „Það tók mig tíu ár að koma þessu saman. Þetta var í raun algjör heppni. Bókasafnarar segja að bækurnar finni þá en ekki öfugt. Þetta eru fimm árgangar af Gefn, fyrstu tvo fann ég hjá fornbókasala, síðan fann ég fjóra saman í tætlum í Kolaportinu, þeir komu úr Möðruvallaskóla. En fimmti árgangurinn átti að vera algjörlega ómögulegur af því að Gröndal prentaði hann til málamynda til að fá peningana,“ segir Ásgeir, sem datt óvænt í lukkupottinn . „Ég fann þann fimmta í Kaupmannahöfn, þá bara gekk ég inn á hann í fornbókaverslun, í raun án þess að leita.“

Ásgeir segir að það sé ákveðin sýki að safna bókum „Það gefur manni töluvert ef þú heldur á frumútgáfum sem mögulega skáldið sjálft hefur handleikið, þá sérðu hvernig skáldið sjálft hafði gert þetta.“ Það fækki þó í röðum bókasafnara. „Þeir eru allir að deyja.“

Gröndal efni í góðan uppistandara

En af hverju hefur hann svona mikinn áhuga á Benedikt Gröndal?

„Þetta er skemmtilegur karakter að mörgu leyti. Hann er mjög fyndinn þó hann hafi þótt meinfýsinn. Það sem er svo gaman við hann er hvað hann er vel menntaður og vel að sér í mörgu. Hann er altalandi á grísku og latínu og hann er líka í náttúrufræði og vel að sér í fornbókmenntum. Hann þorði að vera með sjálfstæða skoðanir þó það kæmi illa niður á honum sjálfum.“

Gröndal var afburðahúmoristi segir Ásgeir og er bókin Heljarslóðaorrusta vitnisburður um það. Hana á Ásgeir í frumútgáfu, í kápueintaki svokölluðu. „Kápueintök njóta sérstakrar virðingar hjá bókasöfnurum. Ég lét binda það inn.“ Hann telur að Gröndal hefði getað orðið að góðum uppistandara hefði hann verið uppi í dag. „En eins og er með marga góða húmorista, þá held ég að hann hafi líka verið þunglyndur og dottið niður.“

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ný bókabúð í miðborginni

Bókmenntir

Nóg að gera í síðustu fornbókabúð Reykjavíkur