Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Taparar í oddvitaslag hafa ekki staðið í stafni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Stjórnmálafræðingur segir að meiri samkeppni sé um efstu sæti á lista VG fyrir þessar Alþingiskosningar því flokkurinn sé orðinn valdaflokkur og forystuflokkur í ríkisstjórn sem nýtur mikils fylgis. Fjórir þingmenn flokksins hafa beðið ósigur í slag um oddvitasæti á lista flokksins í fjórum mismunandi kjördæmum, þar á meðal þingflokksformaður flokksins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. 

Hin þrjú eru Kolbeinn Óttarsson Proppé sem lenti í fjórða sæti í Suðurkjördæmi, en hefur nú sóst eftir sæti á lista í Reykjavík þar sem hann var fyrir í síðustu kosningum, Ólafur Þór Gunnarsson tapaði í oddvitaslagnum í suðvesturkjördæmi þar sem hann var í öðru sæti síðast og Lilja Rafney Magnúsdóttir tapaði í norðvesturkjördæmi þar sem hún var oddviti. 

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir erfitt að segja nákvæmlega hvað veldur því að sitjandi þingmenn hljóti ekki náð fyrir augum kjósenda VG. 

„Við erum að sjá að í svona forystusætin úti á landsbyggðinni er að koma fólk sem hefur mjög sterka tengingu við sín kjördæmi, fólk sem er úti í kjördæminu,“ segir Eiríkur. Sitjandi þingmenn í Reykjavík séu eðli málsins samkvæmt ekki í jafnmikilli tengingu við fólk í kjördæminu og þau sem vinna þar.

„Það er eftirtektarvert að þetta er fólk í forystusveit grasrótar heima í héraði sem er að taka sæti af þingmönnum og það segir auðvitað sína sögu“, segir Eiríkur. 

Hann segir erfitt að lesa það út úr þessum úrslitum að grasrótin sé að hafna þingflokknum og segir að ekki bendi neitt til annars en að forystukonur flokksins, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, séu öruggar í oddvitasætum í Reykjavíkurkjördæmum sínum. 

„Þannig að það er erfitt að segja að forystu flokksins í ríkisstjórn sé hafnað, og þeir þingmenn sem hafa verið að falla í sínum kjördæmum, þetta eru ekki þeir þingmenn sem hafa staðið í stafni þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir þannig að mér finnst ekki rétt að álykta sem svo,“ segir Eiríkur.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir