Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

SORPA segir skilið við svarta ruslapokann

26.04.2021 - 14:48
Sorphirðumaður að störfum í Bankastræti
 Mynd: RÚV
Sorpa ætlar að banna notkun svartra ruslapoka á endurvinnslustöðvum sínum til að styðja við hringrásarhagkerfið og auka endurvinnslu.

Tilmælin taka gildi frá og með deginum í dag, en frá 1. júí verður lagt blátt bann við því að koma með úrgang og endurvinnsluefni í svörtum ruslapokum. Ruslapokarnir þurfa að vera glærir og þá verður hægt að kaupa á endurvinnslustöðvum og í verslunum. 

Sorpa stendur á þrítugu í dag og í tilefni af því verður verslun Góða hirðisins við Hverfisgötu 94-96 opnuð á nýjan leik eftir framkvæmdir. Verslunin var opnuð í fyrravetur í tilraunaskyni og gekk það vel að ákveðið var að halda því áfram. 

„SORPA fagnar þrjátíu ára afmæli sínu í dag. Það er stór dagur í lífi allra og okkur þykir á þessum tímamótum rétt að undirstrika enn stuðning okkar við hringrásarhagkerfið með þessum áherslum. Staðreyndin er því miður sú að meira en helmingurinn af öllu því sem viðskiptavinir okkar skila í gáminn fyrir blandaðan úrgang á sér endurvinnslufarvegi. Efnið sem fer í gáminn fer hins vegar beint í urðun. Glæru pokunum er ætlað að auðvelda starfsfólki endurvinnslustöðvanna að hjálpa viðskiptavinum okkar að skila endurvinnsluefnunum í réttan farveg. Aukin áhersla á endurnot með útibúi Góða hirðisins við Hverfisgötu er auk þess mikilvægur stuðningur við endurnot í hringrásarhagkerfinu,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU í tilkynningu frá fyrirtækinu.