Leggja vörður í átt að veisluhöldum sumarsins

26.04.2021 - 21:10
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að allt þurfi að ganga upp svo að áætlun um afléttingar gangi upp. Eftir því sem bólusettum fjölgar verði hægt að aflétta samfélagslegum hömlum. Hún segir heildarendurskoðun á þjónustu við aldraða vera í vinnslu.

Hertar aðgerðir á landamærum taka gildi á morgun samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra sem var samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Bólusetningar eru á fljúgandi ferð, í þessari viku stendur til að setja enn eitt metið og bólusetja um 25 þúsund manns. Ríkisstjórnin hefur sagt að búið verði að bólusetja alla eldri en 16 ára, að minnsta kosti fyrri bólusetningu, þann 1.júlí og lýst því yfir að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt þegar búið sé að verja stærstan hluta fullorðinna með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni.

„Þá getum við alveg sagt með ábyrgum hætti sagt að það muni endurspeglast í sóttvarnaráðstöfunum. En það breytir því ekki að við munum hafa sprittbrúsa og grímurnar við teltekin tilvik, og auðvitað með þeim fyrirvara, að sóttvarnalæknir verður að meta stöðu faraldursins á hverjum tímapunkti, ekki bara innanlands, heldur líka á landamærunum og í löndunum í kringum okkur. En við teljum að við séum komin með nægan efnivið til að setja þessar vörður fram í sumarið svo að fólk geti nokkurn veginn séð hvort að það sé hægt að gera ráð fyrir góðu fertugsafmæli,“ segir Svandís.

Blindgata í hverjum þjónustuþætti

Skýrsla um rekstur hjúkrunarheimila kom út í seinustu viku. Tap á rekstri hjúkrunarheimila nam þremur og hálfum milljarði króna árin 2017 til 2019. Þetta er niðurstaða starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að greina kostnað heimilanna. Sveitarfélög greiddu með rekstrinum til að draga úr hallanum og með þeirri viðbót náðist hann niður í hálfan annan milljarð króna.  Svandís segir að skýrslan leiði það í ljós að það sé ekki hægt að leysa málefni aldraðra, sem kemur til með að fækka verulega á næstu árum, með hjúkrunarheimilunum einum saman. 

„Við þurfum að taka þetta kerfi í heild og það er það sem ég er búin að setja af stað,  og er búin að fá Halldór S. Guðmundsson til að fara yfir það til að leggja fram tillögu til heildarstefnumótunar í þessum málaflokki. Þá er ég ekki bara að tala um heilbrigðisþjónustuna, heldur líka forvarnir, sveigjanlega þjónustu, heimaþjónustu og   fleira. Eins og þetta er núna þá er þetta eins og þetta séu afmörkuð kerfi. Ég held að það þekki það allir sem eiga ættingja sem eru að nota þjónustu í kerfinu eða fólk sjálft sem er það, það upplifir að það sé í blindgötu í hverjum þjónustuþætti fyrir sig,“ segir Svandís. 

Gefur ekkert uppi um áframhaldandi stjórnarsamstarf

Hún segist ekki vilja gefa neitt út um hugsanlega stjórnarmyndun að loknum kosningum í haust, nú þegar 5 mánuðir eru til kosninga.  

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það, ég sé fyrir mér í stjórnarsamstarf sem Katrín Jakobsdóttir stýrir,“ segir Svandís að lokum.

Kastljós kvöldsins má sjá hér að ofan.