Kona nokkur í íbúðahverfi miðsvæðis í höfuðborginni kom að óboðnum gesti á heimili sínu á sjöunda tímanum í gærkvöld. Ókunn kona hafði einhvern veginn komist inn, gert sig heimakomna og klætt sig í föt af húsráðanda.
Eftir að boðflennunni hafði verið komið út úr húsi kom í ljós að veski og fleiri munir voru horfnir. Málið var tilkynnt lögreglu sem nú vinnur að rannsókn.
Á svipuðum slóðum var stungið með eggvopni á hjólbarða þriggja bíla og telur lögregla að það hafi verið gert um helgina.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti auk þessa að hafa afskipti af ökumönnum undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja auk þess sem einhverjir óku um án gildra ökuréttinda.