KK – árin 1985-2000

Mynd: - / RÚV

KK – árin 1985-2000

26.04.2021 - 15:20

Höfundar

Kristján Kristjánsson hefur verið í sviðsljósinu í þrjá áratugi og gefið út hátt í tug geisladiska undir nafninu KK. Hann hefur gefið út tónlist með KK Bandi, Magnúsi Eiríkssyni og Ellen Kristjánsdóttur. Nú sendir KK í fyrsta sinn frá sér vínylplötu, safnplötuna KK – árin 1985-2000, sem Andri Freyr Viðarsson hefur unnið með honum.

KK fæddist í Minnesota í Bandaríkjunum en fluttist síðar til Íslands og hefur varið lunganum úr sínum 65 árum hér. Hann lærði tónlist í Malmö í Svíþjóð og er útskrifaður tónlistarkennari. Hann ferðaðist um Evrópu sem götulistamaður og spilaði víða á árunum 1985-1990. Á ferðalögum sínum kynntist hann annars konar tónlist og slóst í för með farandsöngvurum sem flökkuðu um norðanverða Evrópu og Norðurlöndin. Hann mótaðist sem gítarleikari, söngvari og skemmtikraftur með því að spila á götum úti, einn með kassagítarinn eða í félagi við aðra „böskara“ og seldi tónlist sína á snældum. Kristján notaði listamannsnafnið KK Son en breytti því einfaldlega í KK eftir að hann flutti aftur heim til Íslands. Hann stofnaði hljómsveitina Grinders í Svíþjóð með Þorleifi Guðjónssyni, Professor Washboard og Derrick „Big“ Walker sem kom síðar í heimsókn til Íslands og vakti þónokkra athygli. Á plötunni verður meðal annars fyrsta lagið sem KK tók upp í stúdíói, lagið The Breeze eftir J. J. Cale, en fyrsta plata KK kom út 1991 og hét Lucky One.

Kristján hefur að mestu unnið við tónlist undanfarna áratugi og unnið fjölda verðlauna í þeirri samkeppni, gull- og platínuplötur auk íslenskra tónlistarverðlauna. Þá hefur hann siglt í gegnum lífið á trillunni sinni, Æðruleysinu, auk þess að stýra vinsælum tónlistarþáttum á Rás 1 sem kallast Á reki með KK. Kristján hefur gert tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús og ber hæst tónlistina í leiksýningunum Þrúgur reiðinnar og Fjölskyldan sem settar voru upp í Borgarleikhúsinu. Hann byrjaði að semja texta á íslensku þegar hann gerði tónlistina við Þrúgur reiðinnar árið 1992. Leikritið sló í gegn og lögin Þjóðvegur 66 og Vegbúi náðu eyrum fjöldans. Þar með opnuðust allar gáttir og KK Band, sem auk KK er skipað Þorleifi Guðjónssyni og Kormáki Geirharðssyni, gerði plötuna Bein leið sem naut gríðarlegra vinsælda.

Platan KK – árin 1985-2000 kemur út 30. apríl. Útgefandi er Reykjavík Record Shop. Platan er vegleg tvöföld ferilsútgáfa og eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna safn laga sem komu út á árunum 1985-2000. Á þeim tíma gaf KK út margar af sínum bestu plötum með lögum eins og Lucky One, Bein leið, Hotel Förøyar, Gleðifólkið, Heimaland og mörg fleiri sem þjóðin þekkir. Einnig er að þar finna lög sem eiga rætur að rekja aftur til ársins 1985 af blússnældum sem KK seldi þegar hann var götuspilari í Evrópu. 

Fyrsta vínylplata Kristjáns Kristjánssonar, KK – árin 1985–2000, er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni með kynningum Kristjáns eftir tíufréttir í kvöld ásamt því að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavík Record Shop - KK
KK - Árin 1985-2000