Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hópsmit virðist komið upp í Þorlákshöfn

26.04.2021 - 04:56
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Hópsmit virðist komið upp í Þorlákshöfn. Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi segir þó að ekki sé um stóran hóp að ræða og vonast sé til að nægilega snemma hafi verið gripið inn í til að komast hjá frekari útbreiðslu veirunnar.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og að enn hafi staðið yfir úrvinnsla sýna þegar blaðið fór í prentun. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er sögð hafa varist fregna þegar eftir þeim var leitað í gærkvöld.

Fjögur staðfest smit sé að finna í bæjarfélaginu en ekki liggi fyrir hvort viðkomandi hafi verið í sóttkví. Haft er eftir Elliða að smitin séu afmörkuð og að hann vonist til að þetta nái ekki samfélagssmiti.

Reynsla undanfarinna missera sýni að nokkuð stór hópur fólks þurfi að fara í sóttkví. Um helgina greindust þrjátíu ný smit innanlands en öll nema eitt innan sóttkvíar.