Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fagnar 30 árum með glærum pokum og nýjum Góðum hirði

26.04.2021 - 19:58
Mynd: RÚV / Skjáskot
Gegnsæi er orð dagsins í Sorpu en nú á allur úrgangur og efni, sem komið er með þangað að vera í glærum pokum þannig að sjá megi innihaldið. Sorpa er 30 ára í dag og í tilefni þess var miðbæjarverslun Góða hirðisins opnuð á ný.

Við innganginn í Sorpu við Ánanaust var Guðmundur Helgi Eyvindsson starfsmaður Sorpu að leiðbeina viðskiptavinum um þetta nýja fyrirkomulag. 
„Við erum að byrja með nýtt átak, sem heitir glærir pokar sem þýðir það að í sumar, 1. júlí, þá detta svörtu plastpokarnir alveg út hjá okkur. Það verður allt í glærum pokum hjá okkur sem þýðir að við verðum bara með betri þjónustu og þetta mun ganga betur og skilvirkara fyrir sig,“ sagði Guðmundur Helgi við einn viðskiptavinanna.

Tilgangurinn með glæru pokunum er að auka hlutfall úrgangs sem fer í endurvinnslu. 

„Hugmyndin er sú að hjálpa og aðstoða íbúa við að flokka betur, við sjáum að 50% af efni sem kemur í blandaðan úrgang hjá okkur er raunverulega efni sem hægt er að flokka betur og vinna betur. Þannig að við fengum þá hugmynd að gefa öllum glæra poka, skylda í rauninni alla til að koma með efnið í glærum pokum svo við getum leiðbeint betur,“ segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu.

Margt hefur breyst í sorpmálum á þeim þremur áratugum sem afmælisbarnið hefur verið starfrækt. „Í Gufunesið voru menn að keyra heilu bílunum og dráttarvélunum beint út í urðunarstaðinn og svo var heimilissorpi sturtað yfir. Núna fara öll svona farartæki, málmar og spilliefni í miklu öruggari og betri farveg en áður.Við erum farin að flokka meira, við erum farin að hafa hugann við það sem við erum að gera,“ segir Jón Viggó. „Flokkunarmöguleikar hafa stóraukist, þekking okkar á umbúðum og því sem við erum að neyta er miklu meiri en áður.“

Getum við gert betur? „Ég held að við gætum gert betur. Ef við horfum á löndin í kringum okkur þá eru flokkunarkerfin flóknari eða nákvæmari. Til dæmis í Danmörku eru átta tunnur við heimilið, í Svíþjóð er verið að tala um tíu tunnur. Þannig að ég held að það séu tækifæri fyrir okkur.“

Er það eitthvað sem við megum eiga von á að sjá? „Ég býst við því. Ef að plön umhverfisráðherra ganga eftir.“

 

Í tilefni afmælisins var verslun Góða hirðisins opnuð að nýju við Hverfisgötu eftir endurbætur. „Ég held að það sé orðin svo mikil vakning á virði hluta og virði þeirra inni í hringrásarhagkerfinu,“ segir Rut Einarsdótir rekstrarstjóri  í Góða hirðinum. „Fólk vill koma notuðu hlutunum sínum áfram inn í hringrásarhagkerfið og að þeir séu nýttir til að endurnota, við sjáum alveg aukningu inn til okkar. Við fáum sjö tonn á dag og svo er þessi breytti lífsstíll: fólk er farið að hugsa um umhverfi sitt, nýta betur, endurnýta, gera upp - svo eru allir búnir að vera í framkvæmdum þannig að þetta er búið að vera skemmtilegur vettvangur undanfarið.“

Viðskiptavinir Góða hirðisins koma víða að, að sögn Rutar. „Það er fólk sem er að byrja að búa, það eru útlendingar sem eru að flytja til landsins, við erum með fólk sem er í endursölu og notar okkur eins og heildsölu. Svo eurm við með fólk sem er áhugamenn um fallega muni og líka leikhús, sviðsmyndir - þannig að við erum með mjög fjölbreyttan og skemmtilegan viðskiptamannahóp.“

Veistu hver er dýrasti hluturinn sem hefur veirð seldur í Góða hirðinum? „Ég held að það hafi verið fyrir198 þúsund. Það var Kai Kristiansen stóll.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir