Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bresk-írönsk kona dæmd fyrir áróður gegn Íransstjórn

26.04.2021 - 21:18
epa09162065 (FILE) - Richard Ratcliffe, the husband of imprisoned Nazanin Zaghari-Ratcliffe, outside the Iranian Embassy in London, Britain, 21 June 2019 (reissued 26 April 2021). Nazanin Zaghari-Ratcliffe has reportedly been sentenced to a further year in prison and a one-year travel ban after being found guilty of propaganda against the regime in Iran.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Richard Radcliffe í mótmælasvelti árið 2019, til að berjast fyrir frelsi eiginkonu sinnar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Forsætisráðherra Bretlands gagnrýnir harðlega fangelsisdóm yfir bresk-íranskri konu í Íran. Hún var í dag dæmd í árs fangelsi fyrir að reka áróður gegn stjórnvöldum. Bretar hyggjast gera allt til að fá hana lausa.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe var handtekin árið 2016 þegar hún var í fríi í Íran. Þá starfaði hún fyrir góðgerðarsamtök. Hún var síðan dæmd í fimm ára fangelsi fyrir njósnir. Eiginmaður hennar, Richard Ratcliffe, hefur ekki séð hana síðan, en hefur barist hart fyrir frelsi hennar.

Skömmu eftir að Zaghari-Ratcliffe hafði afplánað dóminn var hún ákærð fyrir áróður gegn stjórnvöldum vegna þátttöku í mótmælum í London árið 2009. Í dag var hún svo dæmd í árs fangelsi.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands var afdráttarlaus í dag um að hún ætti ekki að vera í fangelsi. „Við gerum okkar besta til að fá hana lausa frá Íran svo hún geti snúið heim til fjölskyldu sinnar í Bretlandi, eins og við gerum fyrir alla með tvöfalt ríkisfang í Íran. Ríkisstjórnin gefst ekki upp. Við leggjum meira á okkur.“

Lögmaður hennar hefur þegar lýst yfir að dómnum verði áfrýjað.

Richard Radcliffe sagði við AFP-fréttastofuna að Íranar væru augljóslega að skapa sér samningsstöðu vegna ríflega 40 ára skuldar Breta við Írana vegna skriðdreka sem Bretar afhentu aldrei. Stjórnvöld beggja ríkja hafa neitað tengslum þarna á milli.

Þá getur handtökuna líka borið á góma í samningaviðræðum sem nú standa yfir um að endurvekja samning um að Íranar hætti auðgun úrans til kjarnorkuvopnaframleiðslu. Þær viðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur en niðurstaða hefur ekki náðst.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV