Árni Ólafur Ásgeirsson látinn

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - RÚV

Árni Ólafur Ásgeirsson látinn

26.04.2021 - 22:14

Höfundar

Árni Ólafur Ásgeirsson kvikmyndaleikstjóri er látinn, 49 ára að aldri, eftir stutt veikindi.

Árni útskrifaðist sem kvikmyndaleikstjóri frá hinum virta kvikmyndaskóla Lodz í Póllandi árið 2001. Árni leikstýrði fyrst stuttmyndum, og síðar kvikmyndunum á borð við  Blóðbönd, Brim og Lói, þú flýgur aldrei einn, og hlaut hann  fjölda verðlauna og tilnefningar á hátíðum víða um heim fyrir.

Árni kom einnig að handritsgerð kvikmyndarinnar Maður eins og ég ásamt Róbert Douglas. Stuttmynd hans, Anna´s dag frá árinu 2003 var verðlaunuð á Clermont-Ferrand hátíðinni og vakti athygli á hátíðum víða um heim. Þá kenndi Árni einnig kvikmyndaleik við Listaháskóla Íslands auk þess sem hann vann við gerð sjónvarpsauglýsinga erlendis.

Fyrsta mynd hans, Blóðbönd, frá árinu 2006 hlaut fimm tilnefningar til Eddu verðlauna og var einnig tilnefnd til norrænu kvikmyndaverðlaunanna, Amanda. Næsta mynd hans, Brim, frá árinu 2010 hlaut sex Edduverðlaun og ellefu tilnefningar það ár. Hún var meðal annars valin kvikmynd ársins.  Myndin var einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. 

Lói- þú flýgur aldrei einn, mynd Árna Óla frá árinu 2018 er líklega sú bíómynd sem hefur farið hvað víðast um heimsbyggðina af íslenskum bíómyndum. Framleiðsla myndarinnar tók rúmlega fimm ár og komu um 400 manns að framleiðslu hennar. 

Síðasta kvikmynd hans, pólsk-íslenska myndin Wolka, verður frumsýnd á næstunni. Þetta kemur fram á vefnum Klapptré.is

Árni lætur eftir sig eiginkonu og einn son.