Svíkja loforð um að ræða vinnuna ekki heima

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Svíkja loforð um að ræða vinnuna ekki heima

25.04.2021 - 13:28

Höfundar

Í Tálknafirði eru nokkrar eldiskvíar á landi sem tilheyra fjölskyldufyrirtækinu Tungusilungi. Fyrirtækið er stofnað af Magnúsi Kr. Guðmundssyni, pabba framkvæmdastjórans, Freyju Magnúsdóttur, og svo starfar sonur Freyju, Ragnar Þór Marinósson, einnig við eldið.

En þá er það ekki upptalið því systir Freyju sér um bókhaldið, þriðja systirin á það til að kíkja við og svo starfa bæði eiginkona Ragnars og tengdamamma hjá fyrirtækinu og þá bætist fjórða kynslóðin stundum við í starfsnámi og sumarstörfum. 

„Við erum eiginlega búin að taka loforð af hvort öðru að vera ekkert að tala um vinnuna þegar við komum heim en það vill oft snúast upp í það að þegar sonur minn kemur í kaffi þá förum við að spá í hvað er búið að panta og hvað er til af þessu og hinu en á móti þá vitum við alveg hvað er í gangi hverju sinni,“ segir Freyja. 

Pabbi Freyju, Magnús, er kominn yfir nírætt og fylgist enn með af hliðarlínunni. „Ég get ekki hætt, ég vil ekki hætta,“ segir hann. Hann segist heppinn að hafa fæðst inn í iðnbyltinguna svo hann þurfi ekki að beita handverkfærum. Þá segist hann sinna eftirlitsstörfum. „Það er algjörlega nauðsynlegt að mínu viti, en svo verða aðrir að dæma um hvort þeir séu sammála,“ segir Magnús.