Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kajak-siglingar hluti af náminu

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Kajak-siglingar hluti af náminu

25.04.2021 - 20:00
Krakkar á unglingastigi í Stóru-Vogaskóla geta valið um að fara á kajak á miðjum skóladegi og notið þannig náttúrunnar og lífsins í kringum skólann á einstakan hátt. Þau fara ýmist út á sjó eða Vogatjörn og siglt er allan ársins hring.

„Það er val á unglingastigi þar sem þau fá að velja sér eitthvað svona skemmtilegt og boðið upp á alls konar og þetta er eitt af því. Það er takmarkað pláss, við höfum bara sex báta og þetta er mjög eftirsótt,“ segir Guðrún Kristín Ragnarsdóttir náttúrufræðikennari. 

„Þetta er rosalega gaman, alveg æðislegt,“ segir Anna Mjöll Dalkvist Gunnarsdóttir nemandi. Hugmyndin hjá skólanum var að reyna að nýta tímana líka í náttúrufræðikennslu. Hópurinn skoðar þörunga, skelfisk og fugla auk þess að læra öryggisatriði, hvernig skal bregðast við ef þau detta sjálf í sjóinn eða félagar þeirra. 

„Ég hef alltaf haft áhuga á kajak og farið á Úlfljótsvatn á kajak þar þannig að ég ákvað að prófa þetta,“ segir Ólafur Már Pétursson nemandi.