Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bretar hefja bólusetningu fólks undir fimmtugu

epa09153002 A nurse prepares a dose of the AstraZeneca vaccine against COVID-19 (also known as Vaxzevria) during an immunization day at an express center in Panama City, Panama, 22 April 2021. Some 18,000 'volunteers' receive the first dose of the vaccine against COVID-19 from AstraZeneca.  EPA-EFE/Bienvenido Velasco
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Á morgun, mánudag hleypir breska ríkisstjórnin af stokkunum átaki til að hvetja fólk undir fimmtugu að láta bólusetja sig gegn COVID-19. Annað stig bólusetninga í landinu hefst á morgun en bólusetningar hafa gengið hratt fyrir sig frá því þær hófust í desember.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að notast verði við sjónvarp, útvarp, samfélagsmiðla og stór auglýsingaskilti til að koma boðskapnum á framfæri í umsvifamesta bólusetningarátaki í sögu Bretlands.

„Sérhver bólusetning færir okkur von“ er yfirskrift herferðarinnar þar sem teflt verður fram heilbrigðisstarfsfólki og bólusettum til kynningar á mikilvægi þess að fá sprautu.

Átakið helst í hendur við tilslakanir á samkomubanni sem gilt hefur um nokkurra mánaða skeið en nýverið lauk fyrstu bólusetningu allra yfir fimmtugu.

Það tekur til næstum 34 milljóna eða tveggja þriðju allra fullorðinna á Bretlandseyjum og vonast er til að náðst hafi að bólusetja alla í sumar.

Nú er talið að bólusetningarátakið hafi orðið til að bjarga tíu þúsund mannslífum en 4,4 milljónir Breta hafa sýkst og 128 þúsund látist af völdum COVID-19.

Greining bresku hagstofunnar og Oxford-háskóla sýnir að smitum fækkaði um 65% eftir fyrstu sprautu og enn meira eftir þá síðari.