Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Andi Nabokovs svífur yfir sögu um einsemd

Mynd: - / Benedikt

Andi Nabokovs svífur yfir sögu um einsemd

25.04.2021 - 14:00

Höfundar

Frásagnarháttur Vladimirs Nabokovs, með hvörfum og tilviljunum, er áberandi í skáldsögunni Um endalok einsemdarinnar eftir Benedict Wells, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Hver manneskja skrifar að minnsta kosti eina skáldsögu á ævinni. Hún er byggð á því sem við fáum í vöggugjöf í uppeldi og umhverfi, algjörum tilviljunum tilverunnar, sigrum og áföllum, lífsákvörðunum sem við tökum til góðs eða ills og, síðast en ekki síst, minningunum sem allt þetta gefur okkur og við mótum síðan í þessa skáldsögu lífsins. Þetta er kannski hnotskurnin í þessari frásögn sem fjallar líka um sorgina, foreldramissi, glötuð tækifæri ástarinnar og hlutverk fjölskyldunnar í lífinu.

Um endalok einsemdarinnar er margslungin saga, þroskasaga sem fjallar um lífshlaup ungs manns frá tíu ára aldri, er hann missir foreldra sína í bílslysi, og fram undir miðjan aldur. Sagan hefst reyndar á því að sögumaður í fyrstu persónu vaknar á sjúkrahúsi árið 2014 eftir vélhjólaslys og það ræsir frásögnina, í formi minninga fram að þeim tíma, frá því skömmu áður en hann missti foreldrana. Hann er yngstur þriggja systkina og þau fara öll á heimavistarskóla eftir áfallið en þótt þau fari í sama skólann skilja þar leiðir að vissu marki. Systkinin eru samt sem áður mikilvægar sögupersónur og síðar í sögunni ná þau aftur sterkari tengslum, þótt það sé upp og niður á þeim 35 árum sem sögutíminn tekur.

Eins og titillinn gefur til kynna er þema sögunnar einsemdin og hvernig á að komast yfir það ástand, sem hér stafar oftast af óvæntum vendingum í lífinu, vendingum sem vel eru byggðar inn í form hennar, þær eru dramatískar og sterkar; í upphafi bílslys foreldranna, um miðbikið brostnar vonir unglingsins í ástalífinu, óvænt hamingjan og sorgin eftir tilverustreð í nokkur ár, og loks hans eigið slys undir lokin þar sem lífslöngunin hangir á bláþræði. Það er ekki hægt að fara nánar út þessi efni án þess að segja of þeim mikið sem ekki hafa lesið enn. En þó má segja að sagan miðli þeirri von sem titillinn ber með sér, að einsemdin sé böl sem hægt sé að yfirstíga, þrátt fyrir margháttuð áföll í lífinu.

Persónurnar eru ljóslifandi í sögunni og mjög raunsæislegar, sérstæðir karakterar, en samt sem áður fólk sem við þekkjum öll einhvers staðar, nútímafólk sem lendir í í lífinu eins og það hefur verið undanfarna áratugi í Vestur-Evrópu. Margt af því er áhugavert og sumt jafnvel skemmtilegt, lífsorkusugan Liz, stóra systir sögumanns, kona sem er alveg ófeimin við að nota sjarma sinn og fegurð til að leika sér að karlmönnum meðan hún hefur áhuga og kasta þeim síðan á haugana; eldri bróðirinn, Marty, með þráhyggjuna, græðir á internetinu meðan það er í barndómi sínum og verður loks prófessor við háskólann í München, sögumaður sjálfur, Jules, sem dreymir um að verða ljósmyndari og rithöfundur, hlédrægur og feiminn þorir hann varla að játa ást sína til stúlkunnar Ölvu, sem sest hafði hjá honum á fyrstu dögunum í heimavistarskólanum, og loks Toni, vinur eldri bróðurins sem aldrei sér sólina fyrir systur bræðranna. Allir þessar persónur eru vel afmarkaðar, og raunar ýmsar aukapersónur líka, einkum rússneski rithöfundurinn A.N. Romanov, sem ungur að árum heimsótti Vladimir Nabokov og hefur kannski lært ýmislegt af honum, ekki síður en höfundur þessarar bókar.

Fyrir utan að sögumaðurinn nefnir Nabokov í sögunni, bætist við að hann nýtir sér að vissu leyti það sem ég vil kalla „tilviljunarprinsipp“ Nabokovs, tilviljanir í textanum valda miklum hvörfum en þær eru engar tilviljanir, þær voru óumflýjanlegar þegar öllu er á botninn hvolft. Annað er hvernig höfundur ræðir blátt áfram um flókin sambönd, ástarvæntingar sögumanns og þríhyrninginn í svissneskri villu uppi í fjöllum. Hér svífur andi Nabokovs yfir vötnum og það er ekki dregin nein dul á það; frásögnin er ekki eins íronísk og gjarnan varð hjá honum og raunar má segja að lokahluti sögunnar sé nokkurs konar meðvitaður Antí-Nabokov, þar sem höfundurinn bindur saman alla þræðina vel og vandlega, kannski aðeins um of, auk þess sem banabeðsatriðið undir lokin minnir dálítið á Viktoríutímann, án þess þó að vera eins tárakreistandi, þar sem lýsingin er hæfilega tregafull og þannig að höfundur dettur ekki ofan í neinn pytt væmninnar, þetta er eins og við þekkjum það sjálf.

F. Scott Fitzgerald svífur líka nokkuð yfir vötnum, og það er heldur ekki dregin nein dul á það. Það sýnir sig helst í frásögninni, hvernig sögumaður talar um sjálfan sig og annað fólk, blátt áfram eins og sagði hér að ofan, en engan veginn stíllaust, það skapast einhvers konar líðandi prósi sem drifinn er áfram af viðburðaríkum hvörfum. Þetta er býsna vel gert og kannski ekki galið að horfa til þessara beggja höfunda sem mikil áhrif höfðu á skáldsagnagerð á tuttugustu öld, en voru samt æði ólíkir, ekki síst í tóntegundinni. Það má segja sagan sé einmitt nær Fitzgerald í henni, en frásagnarháttur Nabokovs með hvörfum og tilviljunum komi á móti. Og vitaskuld hefur höfundurinn sjálfur sína rödd í textanum en hann er ekkert feiminn við að nýta sér þessar fyrirmyndir og gerir það á frumlegan hátt, verð ég að segja.

Út á þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur er ekkert hægt að setja, mig grunar að þessi stíll hafi legið sérstaklega vel fyrir henni og henni tekst að gera bókina einkar læsilega á góðu bókmenntamáli en hún er ekki einungis þroskasaga ungs manns til fullorðinsára, heldur er tekist á við ýmis vandamál tilvistarinnar, dauðann, áföll, þunglyndi og viðbrögð barna í sorg; sagan er samt öll sögð af fullorðnum manni, rithöfundi, og á hans tungumáli svo að hugleiðingar hans sem barns, til að mynda, eru markaðar af því. En heildaryfirbragðið er samt mjög sannfærandi og maður les sig af nokkrum ákafa í gegnum textann, ekki síst þegar hvörfin spretta fram, líkt og þegar Jules hinn ungi leitar uppi Ölvu sína og verður meira en bilt við.

Höfundurinn, Benedict Wells, er ungur, fæddur 1984, og náði fljótt miklum frama í Þýskalandi og hefur gefið út fimm skáldsögur frá 2008 auk eins smásagnasafns og hlotið ýmis verðlaun. Hann hefur sjálfur sagt að bandaríski höfundurinn John Irving sé ástæðan fyrir því að hann fór að skrifa og er það skiljanlegt, og vafalaust mætti finna þræði frá honum í þessum texta, en ég held raunar að Nabokov hafi skipt þann höfund miklu máli líka. En það má segja að þessi svissnesk-þýski höfundur hafi náð valdi á nokkuð bandarískri frásagnartækni, að sá léttleiki eða gáski sem hún býr yfir hefur þannig verið þýddur á þýsku, og nú yfir íslensku og er það vel, því það er með bókmenntirnar eins og fuglana, því fleiri sem syngja með sínu nefi, því fallegri verður söngurinn.