Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vísindamenn hvetja til þefnæmisæfinga

24.04.2021 - 05:54
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Breskir vísindamenn hvetja þau sem hafa sýkst af COVID-19 og misst lyktarskynið að þjálfa það upp með æfingum frekar en að leysa vandann með því að taka stera.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum en þar segir að slík þefnæmisþjálfun sé bæði ódýr og einföld auk þess sé hún laus við allar aukaverkanir sem fylgt geti sterunum.

Æfingarnar byggja á því að þefa tvisvar á dag af einhverju fernu sem hefur kunnuglega og auðþekkjanlega angan. Mælt er með að lykta til dæmis af myntu, appelsínum, hvítlauk eða kaffi.

Það gæti tekið nokkra mánuði að ná þefskyninu aftur en Carl Philpott prófessor við læknadeild Háskólans í Austur-Anglíu segir 90 af hundraði hafa öðlast það aftur að sex mánuðum liðnum.

Tap lyktarskyns er eitt helsta einkenni COVID-19 ásamt hita og viðvarandi hósta. Yfirleitt öðlast fólk lyktarskynið fljótt aftur eftir að því batnar, en einn af hverjum fimm kveðst ekki finna lykt átta vikum eftir að fyrstu einkenna sjúkdómsins varð vart.