Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skítug borgin skákar senuþjófnum Daniel Day-Lewis

Mynd: Miramax / RÚV

Skítug borgin skákar senuþjófnum Daniel Day-Lewis

24.04.2021 - 12:32

Höfundar

Það vantar ekki stórleikara í kvikmynd Martins Scorseses, Gangs of New York. Þrátt fyrir það er aðalpersóna myndarinnar sjálf borgin þar sem hún gerist, segir Sverrir Norland rithöfundur. Gangs of New York er í Bíóást í kvöld.

Gangs of New York er verðlaunamynd frá 2002 í leikstjórn Martins Scorseses. Ungur maður af írskum uppruna heldur til New York árið 1863 til að ná fram hefndum á slátraranum Bill sem drap föður hans í blóðugu klíkustríði. Meðal leikara eru Leonardo DiCaprio, Daniel Day-Lewis og Cameron Diaz.

„Það sem mér fannst svo magnað við þessa tilteknu mynd, Gangs of New York, er að sögusviðið er eiginlega aðalpersónan í myndinni,“ segir Sverrir Norland. „Við erum með þessa stórleikara Leonardo DiCaprio og Cameron Diaz, svona hetjur sem maður ólst upp með. Og svo náttúrulega Daniel Day-Lewis sem er algjörlega senuþjófur myndarinnar. En þrátt fyrir þennan magnaða leik sem hann sýnir sem Bill the Butcher þá er það borgin, sögusviðið, göturnar, skíturinn, allt fólkið í bakgrunni, hreyfing myndavélarinnar og þetta magnaða sögusvið sem þeir draga upp sem einhvern veginn situr sterkast í mér þegar ég hugsa um þessa mynd.“

Þetta er einhver hörkulegasti söguheimur sem Martin Scorsese hefur skapað, segir Sverrir. Myndin hefst á götubardaga milli írskra kaþólikka og þeirra sem kalla sig nativists, eða innfædda. „Það sem mér fannst svo sláandi við það er að þessi átök gætu farið fram á miðöldum, þetta gæti verið eitthvað úr Íslendingasögum. Þetta er í þessari borg en þetta er svo hrottalegt. Menn eru að berjast þarna með grjóti og einhverjum bareflum þannig að ofbeldið er svo ofboðslega óljóðrænt og sláandi. Það er það sem er svo flott við þessa mynd. Hann fegrar sögu Bandaríkjanna svo sannarlega ekki og þetta er það sem ég sakna þess að Hollywood geri meira í dag.“

Martin Scorsese kann þá list að hrista upp í áhorfendum og í Gangs of New York bregst honum ekki bogalistin. „Hann hefur eitthvað að segja, hann þorir. Hann er svona höfundur, svona auteur. Sem er eitthvað sem Hollywood hefur fært sig frá í seinni tíð.“

Gangs of New York er sýnd í Bíóást á RÚV, klukkan 22:05 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Get ímyndað mér að karlinn hafi snúið sér í gröfinni“

Kvikmyndir

Ofbeldisfull bílamynd sem fær próflausa til að bráðna

Kvikmyndir

Eðalskíthælamynd með dýrbrjáluðum Daniel Day-Lewis

Kvikmyndir

Allar ömurlegu teikningarnar eftir leikarann sjálfan