Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Róstusamt á Vesturbakka Jórdan-ár

24.04.2021 - 04:23
epa09153859 Israeli police detain a Palestinian man during clashes between Palestinian and Israeli police next to the Damascus gate of Jerusalem's old city, 22 April 2021. Israeli Police and Palestinians clashed as Israeli Police increases restriction in the area after reports of a march by Lehava, a jewish far-right extremist group.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum vegna vaxandi ofbeldis í Jerúsalem. Óróasamt hefur verið á Vesturbakkanum frá því að Ramadan, föstumánuður múslíma, hófst 13. apríl síðastliðinn.

Lögregla hefur iðulega lokað svæðum þar sem Palestínumenn vilja safnast saman þegar rökkva tekur.

Lögregla lokaði aðgangi að nokkrum svæðum í borginni á fimmtudag sem varð til þess að til árekstra kom utan við hlið að gömlu borginni. Átök brutust út þegar hóp Gyðinga bar að, sem áreittu Palestínumennina og hrópuðu slagorð á borð við „Megi Arabar deyja."

Þeir eru taldir tilheyra öfgasamtökunum Lehava og höfðu verið á mótmælagöngu um borgina. 

Ned Price talsmaður utanríkisráðuneytisins segir að bregðast þurfi hart við framkomu þessa hóps, í garð Palestínumanna. „Hafna ber öfgafullum og hatursþrungnum málflutningi þessara manna," skrifaði Price á Twitter.

Palestínski rauði hálfmáninn tilkynnti að 105 hefðu særst og um tuttugu flutt á sjúkrahús á fimmtudagskvöldið. Ísraelska lögreglan upplýsti að jafnmargir lögreglumenn hefðu orðið fyrir meiðslum. 

Síðdegis í gær upplýsti Ísraelsher að um tugi eldflauga hefði verið skotið frá Gaza-svæðinu í átt að suðvesturhluta Ísraels. Það er þyngsta eldflaugaárás þaðan það sem af er árinu. 

Moshe Lion, borgarstjóri Jerúsalem, segist hafa átt samræður við leiðtoga Palestínumanna á svæðinu um að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldið. Hann kveðst hafa ætlað að stöðva göngu Lehava-hópsins en að lögregla hefði fullvissað hann um að hún væri fullkomlega lögleg.

Jafnframt sagði hann að tugir Gyðinga sem ráðist hefðu að Palestínumönnum hefðu verið handteknir undanfarinn hálfan mánuð.