Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Öll von úti um björgun áhafnar indónesíska kafbátsins

24.04.2021 - 05:23
Erlent · Asía · Indónesía · Kafbátur · Leit · Sjóslys
epa09151935 Indonesian Navy ship KRI Hasan Basri takes part in the search mission for submarine KRI Nanggala that went missing during a naval exercise in Banyuwangi, East Java, Indonesia, 22 April 2021. The German-made submarine was reported missing on 21 April 2021 near the island of Bali with 53 people on board while preparing to conduct a torpedo drill, the Indonesian National Armed Forces said.  EPA-EFE/ASLAM IQBAL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Öll von virðist úti um að hægt verði að bjarga 53 skipverjum indónesísks kafbáts sem saknað er undan ströndum Balí. Nú er talið að þriggja daga súrefnisbirgðir bátsins séu uppurnar.

Herskip og herþotur hafa leitað kafbátsins KRI Nanggala 402 í kapp við tímann í þrjá sólarhringa á 34 ferkílómetra svæði.

Báturinn var smíðaður í Þýskalandi, er einn fimm kafbáta í flota Indónesa og var við heræfingar þegar samband við hann rofnaði á miðvikudag, skömmu eftir að beiðni barst frá honum um leyfi til köfunar.

Julius Widjojono, talsmaður indónesíska sjóhersins, segir leit enn standa yfir en hún hafi enn engan árangur borið. Olíublettur sást á hafinu þar sem kafbáturinn er talinn hafa sokkið og það bendir til að illa hafi farið að sögn Jean-Louis Vichot, fransks sjóliðsforingja á eftirlaunum.

Vísbendingar voru um að báturinn lægi á um 50 til 100 metra dýpi sem veitti von um að áhöfnin væri enn á lífi. Hefði hann sokkið dýpra er líklegt að þrýstingur hefði umsvifalaust orðið skipverjunum að fjörtjóni.