Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðarástand víða í Japan vegna COVID-19

epa09154894 Japan's Prime Minister Yoshihide Suga speaks during a press conference on coronavirus situation in the country in Tokyo, Japan, 23 April 2021.  EPA-EFE/YUICHI YAMAZAKI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES POOL
Lýst var yfir neyðarástandi víða um Japan í gær þremur mánuðum áður en Ólympíuleikar eiga að hefjast í landinu. Meðal annars lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi í höfuðborginni Tókýó en þar eiga leikarnir að hefjast 23. júlí næstkomandi.

Yoshihide Suga forsætisráðherra sagði í yfirlýsingu að ástæða þess að gripið væri til þessa ráðs væri fjölgun kórónuveirutilfella, iðulega af nýjum afbrigðum veirunnar.

Ætlast er til að öldurhúsum verði lokað eða að þau hætti sölu áfengis og eins að fjölsóttum verslunarmiðstöðvum verði lokað. Fólk er hvatt til að vinna heima og áhorfendum verður ekki leyft að sækja íþróttaviðburði.

Yasutoshi Nishimura, ráðherra sem hefur með viðbrögð við faraldrinum að gera, varaði fyrir skemmstu við að grípa yrði til harðari aðgerða þar sem fyrri meðöl dygðu ekki til.

Ætlunin er að hinar nýju ströngu reglur gildi frá sunnudeginum 25. apríl til 11. maí en um þau mánaðamót er „Gullna vikan" svokallaða þegar hefðbundið er að Japanir haldi í ferðalög innanlands.