Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ferðamaður sem átti að vera í sóttkví handtekinn í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði í gærkvöldi hvernig sóttvörnum væri háttað hjá veitingastöðum í miðborginni. Til að mynda var litið eftir hvort gestir væri skráðir samkvæmt reglum. Ferðamaður sem átti að vera í sóttkví var handtekinn á hóteli í nótt.

Í dagbók lögreglunnar segir að víðast hafi ástandið verið mjög gott en þó fengu starfsmenn tveggja veitingastaða leiðbeiningar og tiltal um hvað betur mætti fara.

Ölvaður erlendur ferðamaður var til vandræða á hóteli á öðrum tímanum í nótt. Sá reyndist eiga að vera í sóttkví og hunsaði öll fyrirmæli. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu meðan rannsókn stendur yfir.

Ökumaður var að spóla í miðborginni skömmu eftir miðnættið þannig að dekk hvellsprakk undir bílnum. Lögreglu þótti hann hvorki sýna næga tillitsemi né gæta varúðar með atferli sínu og því var gerð skýrsla um málið.

Tilkynnt var um líkamsárás í austurhluta miðborgarinnar um tíuleytið í gærkvöld þar sem tveir réðust á einn og veittu honum áverka. Árásarmennirnir komust undan en lögregla veit hverjir þeir eru. 

Mikið var um tilkynningar um tónlistar- og gleðskaparhávaða frá heimilum frá því á tólfta tímanum í gærkvöldi og fram eftir nóttu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV