Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

COVID-19 herjar af fullum þunga á Indverja

epa09155271 walk at the city bus stand in Bangalore, India, 23 April 2021. The Karnataka government is contemplating a partial lockdown of the city in the wake of rising Covid-19 cases, extending the night curfew and imposed a weekend curfew which includes closure of cinema halls, bars and pubs, gyms and colleges. India recorded a massive surge of 332,730 fresh Covid-19 cases and 2263 deaths, the highest single-day spike in COVID-19 infections.  EPA-EFE/JAGADEESH NV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnendur sjúkrahúsa á Indlandi sendu út neyðarkall eftir súrefni í gær en kórónuveirufaraldurinn er í stöðugum vexti þar í landi.

Yfir þrjár milljónir hafa fallið í valinn af völdum kórónuveirunnar um heim allan og ekki sér enn fyrir endann á faraldrinum sem hefur geisað á annað ár. Hann hefur lagt þungar byrðar á herðar heilbrigðiskerfa um heimsbyggð alla en aukinnar bjartsýni gætir víða um að bólusetningar verði til að stöðva faraldurinn.

En staðan er ógnvekjandi á Indlandi. Max, sem er stærsta einkarekna spítalakeðjan í Delí, sendi út neyðarkall á Twitter í gær. Þar kom fram að tvö sjúkrahús í borginni ættu aðeins eftir tæprar klukkustundar birgðir af súrefni.

Þar sagði einnig að yfir 700 hefðu verið lögð inn þann daginn með COVID-19 og því væri brýn og umsvifalaus þörf fyrir aðstoð. Í gær tilkynntu stjórnvöld um yfir 330 þúsund smit á einum degi og að meira en tvö þúsund hefðu látist af völdum sjúkdómsins.

Til að bæta gráu ofan á svart létust 13 kórónuveirusjúklingar í sjúkrahúsbruna í Mumbai. Brunar á sjúkrahúsum hafa verið afar tíðir á Indlandi undanfarið.

Mjög strangar sóttvarnareglur eru í gildi víða um þetta fjölmenna land, í höfuðborginni gildir útgöngubann og nú um helgina verður öllu skellt í lás í Uttar Pradesh þar sem búa 240 milljónir.

Fjöldi ríkja hefur bannað allan samgang við Indland af ótta við útbreiðslu nýrra afbrigða kórónuveirunnar.