Árangur kjarasamninga í hættu
Í yfirlýsingu frá miðstjórn ASÍ segir að tilfærsla á verkefnum hjúkrunarheimila víða á landsbyggðinni síðustu mánuði til ríkisins eða einkarekinna fyrirtækja hafi opinberað verulegan launamun innan starfsgreina sem starfa við aðhlynningu. Töluverður árangur hafi náðst í samningum við sveitarfélög og stofnanir síðustu ár víða um land en sá árangur sé nú í hættu.
ASÍ minnir á að einkavæðing velferðarþjónustu verði ekki liðin enda feli hún í sér kröfu um hagræðingu. Í yfirlýsingunni segir að það hafi ítrekað sýnt sig að einkavæðing grunnstoða komi niður á starfsfólki, skjólstæðingum og opinberum sjóðum þegar upp er staðið.
„Daggjöld hjúkrunarheimila eru of lág og fela beinlínis í sér hvata til að greiða lægstu hugsanlegu laun. Það er því á ábyrgð ríkisins að tryggja að laun haldist og greidd séu sömu laun fyrir sömu störf óháð búsetu.“
BSRB á svipuðu máli
BSRB er á svipuðu máli of Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður bandalagsins, segir ótækt að „heilbrigðisþjónusta fyrir þennan stóra hóp aldraðra verði einkavædd og óttumst að afleiðingarnar verði verri þjónusta fyrir íbúa og skerðing á kjörum og starfsaðstöðu starfsfólksins. Það getum við ekki sætt okkur við“.
„BSRB hafnar einkavæðingu Öldrunarheimila Akureyrar og kallar eftir því að samningur við einkaaðila um rekstur hjúkrunarheimila bæjarins verði endurskoðaður,“ segir í ályktun stjórnar BSRB. Þar er bent á að aukin einkavæðing í heilbrigðiskerfinu gangi þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar sem vilji að heilbrigðisþjónustan sé á hendi hins opinbera.
Bandalagið varar sérstaklega við því að skorið verði niður í þjónustu við íbúa hjúkrunarheimila eða að kjör og starfsskilyrði starfsfólks verði skert. Í ályktun stjórnarinnar er bent á að Akureyrarbær hafi tapað um 400 milljónum króna á ári á rekstri hjúkrunarheimilanna. Einkaaðili geti með engu móti tekið við rekstrinum með þeim formerkjum án þess að fara í verulegan niðurskurð.