Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nemendur smeykir við að mæta í vorprófin

23.04.2021 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
„Fólk er mjög smeykt við að mæta í próf. Fram að þessu var það óvissan sem var óþægileg. Það var alltaf verið að bíða eftir næstu reglugerð til að ákveða hvort það yrði próf á prófstað eða ekki,“ segir Jóhanna Ásgeirsdóttir, fráfarandi forseti Landsamtaka stúdenta. Hún segir að víða erlendis hafi verið ákveðið í upphafi annarinnar að prófin yrðu heima vegna óvissunnar. Nemendur séu nú smeykir eftir að kórónuveirusmitum fór að fjölga aftur.

Derek Terell Allen og Jóhanna Ásgeirsdóttir, verðandi og núverandi forsetar Landsamtaka stúdenta voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Í morgun deildum Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri sé skylt að mæta. Prófatíðin hefst eftir viku.

Kalla eftir samræmdum reglum

„Í háskólanum er sjálfstæði deilda sem er jákvætt í flestum tilvikum en okkur finnst það ekki eiga við í heimsfaraldri að hver og ein námsleið eigi að ákveða sínar reglur. Það eigi bara að vera samræmdar reglur með öryggi nemenda og starfsfólks í fyrirrúmi,“ segir Jóhanna. 

„Það eru stúdentar sem vilja mæta til að halda öllu venjulegu en það er að taka áhættu að fara á prófstaðinn, jafnvel þó að þú sért ekki í áhættuhóp sjálfur. Þá er það ábyrgð að halda þig heima, eins og þú getur, þegar ástandið er eins og það er,“ segir Derek Terell Allen, verðandi forseti LÍS.

Þau segja þetta til skoðunar í skólunum. Stundum sé verið að taka mið að einstökum nemum. „Það vantar bara meiri stöðugleika í þessum málum,“ segir Derek Terell.