Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mörg hjúkrunarheimili stefna í þrot

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Tap á rekstri hjúkrunarheimila nam þremur og hálfum milljarði króna árin 2017 til 2019. Þetta er niðurstaða starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að greina kostnað heimilanna. Sveitarfélög greiddu með rekstrinum til að draga úr hallanum og með þeirri viðbót náðist hann niður í hálfan annan milljarð króna. Formaður starfshópsins segir rekstur þeirra bara eiga eftir að þyngjast og mörg þeirra stefna í þrot

Mikil óánægja hefur verið meðal sveitarfélaga með fjárveitingar ríkisins til reksturs hjúkrunarheimila og fjögur sveitarfélög skiluðu nýverið rekstrinum til ríkisins. Heilbrigðisráðuneytið skipaði í ágúst í fyrra starfshóp til þess að greina kostnað við rekstur hjúkrunarheimila. Ráðherra fékk skýrslu frá hópnum í dag. 

3,5 milljarðar króna taprekstur

Niðurstaðan er sú að fjárveitingar ríkisins duga ekki til reksturs hjúkrunarheimila. Tap á rekstri þeirra nam þremur og hálfum milljarði króna árin 2017 til 2019. Sveitarfélög greiddu með rekstrinum til þess að draga úr hallanum og með þeirri viðbót náðist hann niður í hálfan annan milljarð króna. Einungis þrettán prósent heimila náðu endum saman án aðstoðar sveitarfélags. Hin sveitarfélögin hefðu þurft rúmlega sex prósentum hærri tekjur til að þess að ná að standa undir kostnaði.

Langmest voru útgjöld hjúkrunarheimila í formi launagreiðslna eða tuttugu og fjórir milljarðar króna árið 2019. Húsnæðiskostnaður var þrír milljarðar. Árið 2017 var launakostnaður tuttugu og einn milljarður króna, í fyrra var hann orðinn fimm milljörðum hærri eða tuttugu og sex milljarðar króna og viðbúið er að hann verði tæpir tuttugu og níu milljarðar í ár. 

Ná ekki lágmarksfjölda faglærðs starfsfólks

Þá kemur fram í skýrslunni að fæst hjúkrunarheimili ná viðmiði landlæknis varðandi lágmarkshlutfall hjúkrunarfræðinga eða annars faglærðs starfsfólks. 

Gylfi Magnússon, formaður starfshópsins, sagði í kvöldfréttum RÚV, að ekki væri neitt útlit fyrir annað en að rekstur hjúkrunarheimilanna ætti eftir að þyngjast. Launakostnaður ætti eftir að hækka sem kæmi ofan á þungan rekstur.  „Það stefnir því annað hvort í að hjúkrunarheimili fari í þrot eða velti rekstri sínum yfir á ríkið beint.“  Hann telur því að finna þurfti eitthvað framtíðarskipulag.

„Nú þarf að grípa til stórvægilegra aðgerða“

Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sagði stöðuna mikið áhyggjuefni. Ekkert hjúkrunarheimili næði lágmarksviðmiði landlæknis varðandi umönnunarklukkustundir og fæst næðu viðmiði landlæknis varðandi lágmarkshlutfall hjúkrunarfræðinga eða annars faglærðs starfsfólks. Hér á landi væru hlutfall almennra starfsmanna 70 prósent en því væri öfugt farið í Noregi þar sem heilbrigðisstarfsmenn væru 78 prósent starfsmanna. „Nú þarf að grípa til stórvægilegra aðgerða.“