Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kolbeinn tekur ekki sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd:
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, tekur ekki sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Hann gaf kost á sér til að leiða listann en lenti í fjórða sæti í forvali. Skorað hefur verið á Kolbein að gefa kost á sér á lista hjá flokknum í Reykjavík. Hann kveðst hrærður og upp með sér með fjölda áskorana en segist ekki hafa tekið ákvörðun um framboð í Reykjavík.

Kolbeinn birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni. Þar segist hann eftir töluverða yfirlegu hafa ákveðið að þiggja ekki sæti á lista í Suðurkjördæmi. „Forvalið skilaði öflugum lista frábærra kvenna, miklum áhuga á Vinstri grænum og tækifæri til góðrar útkomu í haust,“ segir Kolbeinn, þakkar fyrir stuðninginn sem hann fékk og óskar félögum sínum í Suðurkjördæmi góðs gengis.

Eftir að niðurstöður forvalsins í Suðurkjördæmi lágu fyrir var skorað á hann að gefa kost á sér í framboð fyrir flokkinn í Reykjavík. Kolbeinn sagði í samskiptum við fréttastofu að hann hefði ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort að hann verði við þeim áskorunum.

Leiðrétt: Í upphaflegri gerð sagði að Kolbeinn hefði lent í þriðja sæti en hið rétta er að hann lenti í fjórða sæti í forvalinu.