Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kallað eftir vernd frá árásum stórfyrirtækja

Mynd: Grímur Sigurðsson / RÚV
Forsætisráðherra segir ekki góðan brag á því að stórfyrirtæki höfði mál gegn starfsmönnum opinberra stofnana. Hún segir koma til greina að setja lög til að vernda þá gegn slíkum málsóknum. Slík lög gætu einnig náð yfir heilbrigðisstarfsfólk.

Samherji kærði í apríl 2019 fimm starfsmenn Seðlabanka Íslands vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn gjaldeyriseftirlits bankans á hendur fyrirtækinu. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsakaði málið en vísaði kærunni frá í byrjun mars.

Í viðtali við Stundina kallar Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, eftir því að Alþingi setji lög þar sem opinberum starfsmönnum og embættismönnum er veitt vernd gegn slíkum málsóknum. Það sé ótækt að einkafyrirtæki geti ráðist persónulega að þeim með slíkum hætti.

Þarf heildstæða skoðun

Seðlabankinn hefur farið þess á leit við stjórnvöld að svokallað skaðleysisákvæði verði sett í frumvarp um gjaldeyrismál sem nú er til meðferðar á þingi. Forsætisráðherra segir hins vegar að málið þurfi að skoða heildstætt, ekki sé hægt að setja lög um einstaka stofnanir áður en slík skoðun hefur farið fram.

 „Slíkt ákvæði gæti auðvitað varðað fleiri en bara starfsmenn sem eru bara að sinna fjármálaeftirliti og gjaldeyriseftirliti. Við höfum auðvitað verið með mál hvað varðar heilbrigðisstarfsfólk, framlínufólk í heilbrigðisþjónustu þar sem einstaklingar hafa verið sóttir til saka vegna mistaka í starfi.“

Ekki góður bragur

Katrín tekur þó undir með seðlabankastjóra um að opinberir starfsmenn eigi að geta sinnt sínum skyldum án þess að eiga hættu á persónulegum lögsóknum.

 „Mér finnst ekki góður bragur á því að stórfyrirtæki séu í málaferlum við einstaka starfsmenn stofnana. En auðvitað er þessi saga orðin mjög löng og við þekkjum hana. Við þekkjum álit umboðsmanns um stjórnsýslu Seðlabankans og álitsgerð bankaráðs Seðlabankans. Og það liggur alveg fyrir að sú stjórnsýsla hefur verið gagnrýnd.“

Hagsmunagæsla ekki séríslensk

Seðlabankastjóri segir enn fremur í viðtalinu að Íslandi hafi að miklu leyti verið stjórnað af hagsmunahópum sem fari sínu fram gegn veikum ríkisstofnunum. Katrín segir það ekki séríslenskt að hagsmunaaðilar beiti sér. Stjórnvöld hafi sett lög um skráningu hagsmunavarða og nú séu samskipti við hagsmunaaðila skráð sem ekki var gert áður. „Því það skiptir gríðarlegu að það ríki mikið gagnsæi um þessi mál þannig að allir geti áttað sig á því hver samskipti stjórnvalda og hagsmunavarða eru í raun og veru og að sjálfsögðu geta þau líka bara verið eðlileg.“