Eins og smurð vél

Mynd með færslu
 Mynd:

Eins og smurð vél

23.04.2021 - 14:12

Höfundar

Fimmta plata blúsrokkaranna í The Vintage Caravan heitir Monuments. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Íslenskt heiti Álftanesrokkaranna góðkunnu væri fornfálega hjólhýsið, mynd sem stendur í mikilli andstöðu við það sem bandið er orðið. Vel smurð rokkvél, þétt og straumlínulöguð hvar hún ferðast um blúsrokklendur á eftirtektarverðri þeysireið. Sveitin hefur notið þess að starfa að fullu við list sína undanfarin ár á erlendri grundu og hefur haldið tónleika út um allar koppagrundir.

Monuments var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði í febrúar og mars í fyrra og gefin út hjá austurríska útgáfurisanum Napalm Records. Sveitin var áður hjá Nuclear Blast og hefur því verið á mála hjá tveimur nafntoguðum útgáfum.

The Vintage Caravan starfar innan kunnuglegs, sígilds ramma hvar fyrirmyndirnar eru orkutríó að hætti Cream og Rush; tónlistin blússkotið þungarokk í anda Zeppelin og Sabbath. Blúsað og orkuríkt rokk og ról eru réttir dagsins, í dag og alla daga.

Monuments rúllar feykivel verður að segjast. Hún hljómar vel og er auk þess temmilega fjölbreytt lagasmíðalega séð. Upphafslagið, Whispers, er í kunnuglegum ham, dúndrandi blúsrokkari hvar gítarleikur Óskars Loga Ágústssonar skín skært að vanda. Aðrir liðsmenn eru Alexander Örn Númason á bassa og Stefán Ari Stefánsson á trommur. Epískur millikafli, gítarsóló, þetta er allt þarna. Crystallized er í svipuðum gír og sama má segja um Cant‘ Get You Out Of My Mind. Dark times er hins vegar öðru vísi. Byrjar með þjóðlagastemmu áður en það dettur í afskaplega áhlýðilega rokkkeyrslu. Það er nettur Jethro Tull-fílingur í gangi og það finnst mér ekki leiðinlegt! Frábært lag! This One‘s For You er svo ljúflingsballaða, samin til bróður Óskars sem lést fyrir þremur árum. Forgotten er mikið og langt verk, margir kaflar og skiptingar og tækifæri fyrir hljóðfæraleikarana til að hnykla tæknivöðvana. Restin er samsafn af mismunandi tilbrigðum við blúsrokksskapalón sveitarinnar en lokalagið er hægstreymt með stíganda sem ágerist eftir því sem á líður.

Sagt hefur verið að Vintage Caravan sé alltaf að gera sömu plötuna og það er rétt upp að vissu marki. Alveg eins og Skálmöld, Iron Maiden, AC/DC o.s.frv. Þegar greinileg ákvörðun er tekin um þann ramma sem á að vinna innan er lítið hægt að segja. Frumleiki skiptir litlu máli en útfærslan hins vegar öllu. Og þessi áreiðanleiki, ef svo mætti segja, hefur aflað Vintage Caravan vinsælda rétt eins og í tilfelli Skálmaldar. Plötur Vintage Caravan hafa orðið betri með árunum; fyrstu eru óheflaðar og vel ófrumlegar á köflum en nú er alveg hægt að tala um Vintage Caravan-hljóm þó hann sé vissulega kirfilega innan alþjóðlega ný-blúsrokkshljóðheimsins (það eru margar „Vintage Caravan“ hljómsveitir starfandi, maður minn). Og síðustu tvær plötur, þessi meðtalin, eru í raun framúrskarandi dæmi um hvernig á að jafnhatta þennan stíl.  
Það komu alveg eitt eða tvö augnablik þar sem ég dæsti yfir enn einu endurunnu áttunda áratugar riffinu. En sveitin gerir þetta allt svo vel og af það mikilli ástríðu og heilindum að það er ekki hægt að tuða. Hættu þessu Arnar! Fornfálega hjólhýsið er á flugi sem aldrei fyrr.