Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Barist við geimverur með Daða og Gagnamagninu

Mynd: Daði og Gagnamagnið / Aðsent

Barist við geimverur með Daða og Gagnamagninu

23.04.2021 - 19:27

Höfundar

Hægt er að bregða sér í hlutverk Daða og Gagnamagnsins og berjast við geimverur sem hata tónlist í nýjum tölvuleik sem kom út í dag. Tæpur mánuður er þangað til íslenski hópurinn stígur á stokk í Eurovision keppninni í Rotterdam.

Nú er aðeins tæpur mánuður í að Eurovision keppnin fari fram í Rotterdam í Hollandi. Undanúrslitin verða 18. og 20. maí og úrslitakvöldið verður svo laugardaginn 22. maí. Daði og Gagnamagnið stíga á stokk með lagið 10 Years síðara undanúrslitakvöldið. Daði segir að undirbúningur gangi vel.

„Það gengur mjög vel bara. Við erum að taka æfingu í dag og erum að klára að fínstilla hvernig atriðið verður,“ segir Daði.

Mikil athygli

Búið er að spila myndbandið við 10 Years tæplega 900.000 sinnum á Youtube, og á Spotify er talan komin í 1,7 milljónir.

„Ég held að þetta sé að fara mjög vel af stað. Þetta fer augljóslega ekki eins vel af stað og í fyrra en núna erum við líka aðeins seinna á ferðinni.“

Mikill áhugi er á Daða víða um heim og hann segist hafa veitt mikinn fjölda viðtala að undanförnu. 

„Ég er í rosalega mörgum viðtölum já. Ég er að reyna að minnka það eins og ég get svo ég hafi tíma til að gera allt hitt sem ég er að reyna að gera.“

Ertu bara orðinn pínu þreyttur á þessu?

„Ég myndi ekki segja beint þreyttur, en jú pínu þreyttur, en þetta er samt mjög gaman ennþá.“

Vilja ekki útrýma tónlist

Í dag kom út tölvuleikur sem ber nafnið Daði & Gagnamagnið: Think About Aliens. 

„Maður spilar sem Gagnamagnið, eða maður byrjar sem ég, og við erum að berjast við geimverur sem hata tónlist. Þær vilja útrýma tónlist en við viljum ekki að þær útrými tónlist.“

Daði segir að sig hafi lengi langað til að búa til tölvuleik, enda passi það vel við stemninguna í kringum Gagnamagnið.

„Hann er undir miklum áhrifum frá Super Mario Bros. og Celeste og svoleiðis leikjum,“ útskýrir hann.

Íslenski hópurinn þarf ekki að fara í sóttkví við komuna til Hollands, en ljóst er að COVID-19 mun hafa sín áhrif á keppnina og umgjörð hennar.

„Við erum í rauninni bara að fara að vera uppi á hóteli skilst mér, á meðan við verðum þarna úti. Það verða engin partý og ef við ætlum að fara eitthvert þarf það að vera í farartæki á vegum Eurovision. Þannig að þetta verður allt öðruvísi en þetta hefur verið,“ segir Daði.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Árný býður upp á rímur og prjónaskap í Rotterdam

Tónlist

Bolaðu skrímslum í burtu með dansinum hans Daða

Menningarefni

Daði og gagnamagnið áttundu á svið í Rotterdam

Tónlist

Daði og Gagnamagnið frumsýna myndbandið við 10 Years