Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ásmundur Einar rýkur upp ánægjulistann

23.04.2021 - 19:15
ánægja með störf ráðherra apríl 2021 skv. þjóðarpúlsi Gallup
 Mynd: RÚV/Kolbrún Þóra
Katrín Jakobsdóttir og Ásmundur Einar Daðason eru þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem njóta mestrar hylli almennings. Kristján Þór Júlíusson er hins vegar sá ráðherra sem fæstir eru ánægðir með og flestir óánægðir.

Gallup kannaði á dögunum ánægju almennings með ráðherra en sambærileg könnun var gerð á svipuðum tíma í fyrra. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, nýtur sem fyrr mestrar hylli en 67 prósent sögðust ánægð með hennar störf. Það er 8 prósentustigum meira en í fyrra.

Sá ráðherra sem kemur næstur er Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Það vekur athygli í ljósi þess að hann var á meðal þeirra ráðherra sem nutu hvað minnstrar hylli í fyrra. 59 prósent eru ánægð með hans störf nú - samanborið við 35 prósent í fyrra.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, hafa einnig vaxið í áliti meðal almennings undanfarið ár og það hafa Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson einnig gert.

Ánægja með störf Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, og Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ferðamálaráðherra, minnkar talsvert á milli ára - í báðum tilvikum um meira en 10 prósentustig. Ánægja með störf fjármálaráðherra og umhverfisráðherra minnkar einnig lítillega.

Kristján Þór í sérflokki

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, er sem fyrr í sérflokki meðal ráðherra. Einungis 11 prósent segjast ánægð með hans störf, litlu meira en í fyrra þegar 10 prósent kváðust ánægð.

Kristján toppar líka óánægjulistann og rétt eins og í fyrra eru sex af hverjum tíu óánægð með hans störf. 

Óánægjulistinn endurspeglar að mestu leyti ánægjulistann en það ber helst til tíðinda að minnst óánægja er með störf Ásmundar Einars. Í fyrra var óánægjan minnst með störf Katrínar.

Könnunin var gerð dagana 25. mars til 19. apríl.  Þátttökuhlutfall var 50,3%. Úrtaksstærð var 3.186 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu, valdur af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

óánægja með störf ráðherra skv. þjóðarpúlsi gallup apríl 2021
ATH: Svarta súlan á myndinni er frá 2020 Mynd: RÚV/Kolbrún Þóra
Magnús Geir Eyjólfsson