Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Að stjórna úr farsímanum

23.04.2021 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Undanfarið hefur hvert spillingarmálið, tengt Íhaldsflokknum breska, rekið annað, nú síðast mál tengt forsætisráðherra. Stjórnarandstaðan gerir sér mikinn mat úr þessum málum og í þeim bergmála spillingarmál fyrri áratuga. Í raun oft þannig að það eru líkur á spillingu ef einn flokkur er lengi við stjórn.

Spilling aftur dagskrá

Spillingarumræðan hér í Bretlandi hefur náð hæstu hæðum undanfarið, margar sögur fléttast þar saman. Nýjar sögur sem bergmála sögur fyrri áratugi.

Bergmál umræðna fyrri áratuga

Þarna 1994 voru það fréttir um hegðun í opinberri stjórnsýslu, ekkert nema aurkast og aðdróttanir sagði John Major þá forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins í þinginu. Spillingarmálin áttu sinn þátt í kosningatapi flokksins 1997. Og Gordon Brown leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra að biðja þjóðina afsökunar eftir risnusvindl þingmanna 2009. Vandinn kannski sá að eftir langan valdatíma eins flokks er hætt við spillingu.

Tvær nýjar sögur

Nú eru tvær sögur í gangi. Sú fyrri um David Cameron fyrrum forsætisráðherra. Og nú ein núverandi forsætisráðherra Boris Johnson. 

Cameron og erindrekinn

Mál Camerons snýst um störf hans fyrir ástralskan umsvifamann, Lex Greensill, komst upp eftir að fjármálafyrirtæki Greensills fór í þrot í mars. Greensill var um hríð ráðgjafi David Camerons þá leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra sem var síðan orðinn starfsmaður Greensills tveimur árum eftir að Cameron sagði af sér sem forsætisráðherra 2016.

Sérgrein Greensills

Sérgrein Greensills var sérhæfð tegund fjármögnunar fyrir bæði einkafyrirtæki og opinberar stofnanir. Í raun nokkurs konar smálán, segja sumir. Greensill vildi gjarnan komast í viðskipti við ríkisstofnanir, til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Og hvað betra en að ráða fyrrum forsætisráðherra sem erindreka. Hann þekkti alla, var með símanúmerið hjá öllum. Johnson liðkaði fyrir rannsókn á umsvifum Camerons, nokkrar rannsóknir í gangi og fjölmiðlar hér bæta næstum daglega nýju efni í þessa sögu.

Johnson og ryksuguframleiðandinn

Í vikunni bættist saga af núverandi forsætisráðherra, sem Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins bar upp í fyrirspurnartíma í þinginu í vikunni:

Hvað telur forsætisráðherra réttast að gera þegar milljarðamæringur og styrktarmaður flokks hans hefur samband og biður forsætisráðherra að laga skattareglur?

Skattamál Dysons eldfimt efni

Starmer vísar þarna til nýrra afhjúpana um skilaboðasamskipti ryksuguframleiðandans James Dysons. Í upphafi veirufaraldursins bauðst Dyson til að framleiða öndurvélar. Það varð reyndar ekki úr, en Dyson hafði þá áhyggjur af skattareglum. Skattamál Dysons eru bæði umrædd og eldfim eftir að hann flutti fyrirtækið og sjálfan sig í erlent skattaskjól.

Johnson taldi sig sinna þjóðarhag, ekki hag Dysons

Johnson svaraði óhikað að hann hefði verið að greiða götu Dysons og bæðist ekki afsökunar á því. 

Allir forsætisráðherrar hefðu gert hið sama til að bjarga málum á erfiðum tímum. – Forsætisráðherra nefndi þó ekki að í venjulegum innkaupum hins opinbera er greitt fyrir þau, án þess að breyta í leiðinni lögum og reglum.

,,Ég bjarga þessu!” ,,Spilling, spilling...”

Svar forsætisráðherra til Dysons var: ,,Ég bjarga þessu“ Svona væru kunningjatengsl, hnykkti Starmer á. Undirborgað hjúkrunarfólk gæti ekki sent skilaboð beint á forsætisráðherra og uppskorið greiðvikni. Ein regla fyrir þá sem hafa símanúmer forsætisráðherra, önnur fyrir alla hina, sagði Starmer sem hjólaði svo í forsætisráðherra, spilling, spilling spilling! 

Klingjandi bergmál tíunda áratugsins

Klingjandi bergmál af herferð Verkamannaflokksins á tíunda áratugnum gegn þáverandi stjórn Íhaldsflokksins vegna spillingarmála.

Farsímanotkun forsætisráðherra

Sagan snýst um símanotkun forsætisráðherra, sem er mjög rausnarlegur á símanúmer sitt og að lofa fólki að kippa hinu og þessu í lag. Þetta ku valda áhyggjum meðal embættismanna í kringum hann, ekki viðeigandi vinnubrögð. Talað um að hann eigi að fá nýtt símanúmer og ekki dreifa því. Tony Blair, forsætisráðherra 1997 til 2007 sagðist í viðtali í vikunni ekki hafa haft farsíma, meðal annars til að sleppa við svona kvabb.

Forsætisráðherra lofar meiru en hann getur staðið við

Og reyndar, eins og í máli Dysons, ekki á færi forsætisráðherra að laga eða breyta skattareglum. Í víðara samhengi snýst málið um hvað sé eðlileg stjórnsýsla. 

Hver lak? Fyrrum ráðgjafi forsætisráðherra

Þessi leki á samskiptum forsætisráðherra og Dysons er athyglisverður því það eru ekki margir sem hafa þessi skilaboð, spurning hver leki. Í kringum forsætisráðherra er gengið út frá því að það sé hinn víðfrægi fyrrverandi ráðgjafi forsætisráðherra, Dominic Cummings. 

Leiðtogar sem skapa vanda

Það er stundum sagt að vandi sýni hvern mann leiðtogi hefur að geyma, skapi leiðtogann. Í tilfellum Camerons og Johnsons virðist það frekar vera að leiðtoginn skapi vandann.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV