Vilja fá Samherjamenn framselda til Namibíu

22.04.2021 - 21:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákæruvaldið í Namibíu ætlar að reyna að fá tvo Íslendinga í Fishrot- málinu framselda til Namibíu. Embætti ríkissaksóknara hér á landi tekur þó fyrir að slíkt sé gert, þar sem ekki eru í gildi samningar um framsal frá Íslandi til Namibíu.

Málflutningur í máli ríkissaksóknarans í Namibíu gegn sakborningum í Fishrot málinu hófust í dag í höfuðborginni Windhoek. Málinu var frestað til 20. maí.

Samkvæmt þarlendum fjölmiðlum og Stundinni kom fram í máli saksóknara í málinu, Ed Marondedze, að þrír sakborningar, það eru fyrirtæki í eigu Samherja, sem Egill Helgi Árnason stýrði, Egill persónulega og Aðalsteinn Helgason, sem einnig kom að stjórnun fyrirtækja í eigu Samherja í Namibíu hefðu ekki komið fyrir dóminn þar sem ríkið væri ekki búið að fullklára framsalsbeiðnir gegn þeim. Stundin hefur eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni, vararíkissaksóknara á Íslandi að það muni ekki koma til þess að Ísland framselji ríkisborgara til Namibíu. Slíkt sé lögbrot. Enginn framsalssamningur sé í gildi á milli Íslands og Namibíu. Auk Egils og Aðalsteins var Ingvar Júlíusson einnig í ákæruskjali saksóknara. 

Ákæruvaldið fór fram á frest í málinu og varð verjandi við þeirri beiðni. Ákæran er í fjórtán liðum. Margir þeirra snúa að Íslendingunum en þeir eru meðal annars sakaðir um hafa brotið gegn lögum um skipulagða glæpastarfsemi og stundað bæði skattsvik og peningaþvætti. 

Ríkissaksóknari í Namibíu birti ákæruskjölin í byrjun febrúar en samkvæmt þeim eru 26 ákærðir, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Þeir Ingvar, Egill Helgi og Aðalsteinn stýrðu eða komu að stjórnun fyrirtækja Samherja í Namibíu. Bæði Aðalsteinn og Egill Helgi voru framkvæmdastjórar Samherja í Namibíu; Egill Helgi í Esju Holding og Mermaria Seafood Namibia og Ingvar var fjármálastjóri fyrir Saga Seafood, Esja Investment og Heinaste Investments. 

Leiðrétting 23. apríl 2021 kl. 11:06: Í fréttinni var sagt að þeir Aðalsteinn, Egill Helgi og Ingvar sættu nú þegar ákæru í málinu. Hið rétta er að nöfn þeirra birtust í ákæruskjali saksóknara frá því í febrúar en þeir hafa ekki verið formlega ákærðir þótt vilji saksóknara standi til þess.