„Væri stórt að komast til Tókýó“

Mynd: Facebook / Facebook

„Væri stórt að komast til Tókýó“

22.04.2021 - 17:30
Patrekur Andrés Axelsson, spretthlaupari, bætti á dögunum Íslandsmetið í 400 metra hlaupi í flokki blindra. Það sem meira er, þá hljóp hann undir Ólympíuviðmiði fyrir Ólympíumót fatlaðra í sumar. Það eitt og sér tryggir honum þó ekki farseðilinn til Tókýó.

 

Patrekur Andrés hefur mest hlaupið 100 og 200 metra hlaup en á síðustu árum fært sig aðeins í lengri vegalengdir. 400 metrarnir hafa þar reynst drjúgir.

„Þetta var mjög sterkt hlaup myndi ég segja. Þetta er í annað skipti sem ég hleyp 400 metrana innanhúss, fyrri tíminn minn var 1:08 mínútur og ég hljóp núna á 56,95, sem er undir Ólympíuviðmiðinu sem eru 57 sekúndur. Að gera þetta í annað skiptið hérna innan húss er eiginlega ótrúlegt, að hafa náð því. Þetta var gríðarlega hratt og taktískt hlaup,“ segir Patrekur um árangurinn.

Patrekur og Helgi Björnsson, leiðsögumaður hans, eru þó ekki komnir með farseðilinn til Tókýó enn, þrátt fyrir árangurinn. 

„Nei, ekki beint. Ég þurfti að ná þessu til að komast inn á ranking listann, eða styrkleikalistann. Það gefur mér ennþá meiri möguleika til að komast til Tókýó. Nú hef ég tvo mánuði til að hlaupa mig ennþá ofar á listann til að eiga meiri möguleika á að komast inn á leikana.“

Patrekur segir það vera mikinn persónulegan sigur fyrir sig að komast á Ólympíumótið.

„Sko, það væri stórt. Ég er búinn að hugsa um þetta síðan ég var tvítugur, þegar ég missti sjónina 2014. Ég setti mér þetta markmið að fara á Ólympíuleikana og ég er einu skrefi nær því núna. Það myndi gefa mér það að allt sem ég tek mér fyrir hendur, að ég get náð því,“ segir Patrekur Andrés Axelsson.