Sumarið heilsar með vætu suðvestantil

22.04.2021 - 07:47
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Útlit er fyrir suðaustlæga átt með morgninum, fimm til þrettán metra á sekúndu. Hvassast verður suðvestanlands. Víða verður væta með köflum, en þurrt norðaustantil seinni partinn. Hiti á bilinu þrjú til níu stig að deginum.

Suðaustlægar áttir verða einnig ríkjandi um helgina og væta með köflum, en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti sex til tólf stig. Norðlægari vindur í byrjun næstu viku. Úrkomulítið á landinu og svalt norðaustantil, en milt að deginum sunnan- og vestanlands.

Sumarið heilsar á suðaustlægum áttum með vætu víða um sunnan- og vestanvert landið, segir í pistli veðurfræðings. Þó stefnir í að hlýni hjá okkur fram á sunnudag. Spár gefa til kynna að það fari að kólna hjá okkur aftur eftir helgi, sérstaklega norðaustanlands.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV