Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sóttvarnahúsum fjölgar í kjölfar lagasetningar

Mynd: RÚV / Skjáskot
Í morgun var opnað nýtt sóttvarnahús og áform eru um að opna fleiri. Búist er við fleiri gestum þangað í kjölfar laga sem samþykkt voru á Alþingi í nótt um að skikka megi fólk frá hááhættusvæðum í sóttvarnahús. Sóttvarnalæknir vinnur nú að minnisblaði með tillögum um aðgerðir á landamærunum. 

Sautján greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, af þeim voru átta utan sóttkvíar, sem er sami fjöldi og á laugardaginn var, en þá höfðu ekki greinst jafnmargir utan sóttkvíar síðan í nóvember. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ánægður með samþykkt laganna. Þau gera ráð fyrir að hann skili ráðherra minnisblaði áður en hertar landamærareglur taka gildi og að hann skilgreini hvaða lönd séu hááhættusvæði eftir fjölda smita og þeim veiruafbrigðum sem þar greinast.

„Ég tel að þetta sé mikið framfaraspor og að þetta sé svar við því ákalli sem ég hef allavegana haft um það að við þurfum að geta beitt úrræðum þar sem við getum skyldað fólk í sóttkví þar sem við getum haft betra eftirlit með því,“ segir Þórólfur.

Hann vinnur nú að minnisblaði um sóttvarnaaðgerðir á landamærunum. Í samtali við fréttastofu nú undir kvöld sagði hann óvíst hvort hann myndi skila því til heilbrigðisráðherra í dag. 

Búist er við fleiri gestum í sóttvarnahús í kjölfar þessara breytinga.  Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður sóttvarnahúsa segir að verið sé að undirbúa það. „Við opnuðum í morgun nýtt hótel sem mun taka við þeim sem hafa verið útsettir fyrir veirunni. Þetta hótel verður burðarstoðin í þessum flugfarþegum og þeim farþegum sem koma til landsins. Það er að fyllast, það er nánast orðið fullt núna en það losnar töluvert á morgun og næstu tvo daga frá okkur. Þannig að þetta gæti sloppið eitthvað aðeins áfram,“ segir Gylfi.

Fari svo að húsnæði skorti verður Storm Hótel sem stendur gegnt sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún tekið í notkun og Gylfi segir líklegt að fjölga þurfi starfsfólki.

Hann var kallaður á fund velferðarnefndar Alþingis í gærkvöld þar sem lagasetningin var til umræðu. Hann segist hlynntur þessum lögum. „Þetta er góð breyting fyrir landsmenn. Með þessu getum við vonandi farið að lina hömlurnar hér innanlands. Og er það ekki það sem við viljum, núna þegar það er komið sumar?“