Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Njála eins og rotta sem keyrt hefur verið yfir

Mynd: Handritin - Veskú / RÚV

Njála eins og rotta sem keyrt hefur verið yfir

22.04.2021 - 14:00

Höfundar

Handritin geyma ómetanlega sögu og vitnisburð um horfinn tíma, þó ósjáleg geti verið. Fjallað er um heimkomu íslensku miðaldahandritanna í nýjum heimildaþætti.

Þann 21. apríl voru 50 ár liðin frá komu fyrstu handritanna aftur til Íslands en þá hafði málið verið dagskrá í  meira en 60 ár. Fyrstu tvær bækurnar úr safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn komu til landsins með herskipinu Vædderen þennan dag og þjóðhátíðarstemning var á Íslandi. 

Í þættinum Handritin – Veskú, sem aðgengilegur er í spilara RÚV, er sagt frá heimkomu handritanna með því að heyra margar ólíkar raddir, bæði íslenskar og danskar, sem rekja ástæður þess að það tók frændþjóðirnar langan tíma að semja um hvar þau skyldu varðveitt. Nú þegar helmingur handritasafns Árna Magnússonar hefur verið á Íslandi í hálfa öld er einnig horft til framtíðar og spurt hvaða vitnisburð handritin geyma fyrir komandi kynslóðir.

Jafnaldrarnir Njála og Notre Dame

Meðal viðmælenda í þættinum er Pétur Gunnarsson rithöfundur. „Þetta er eins og rotta sem keyrt hefur verið yfir á hraðbraut,“ segir hann þegar hann lýsir handriti Njálu. „Þetta er skorpinn, undinn köggull. Þetta er Njála. Þetta er Notre Dame. Þær eru jafn gamlar, Njála og Notre Dame. Notre Dame stendur þarna enn, en næstum því brunnin til kaldra kola, en Njála lítur svona út, undin og skorpin. En innihaldið sem við lesum úr þessu handriti er náttúrulega þessi klassíski texti sem lifir bara, öld af öld.“

Mynd með færslu
 Mynd: Handritin - Veskú - RÚV

„Það sem er svo magnað er að við getum lesið þetta,,“ segir Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknarprófessor. „Það er ekki bara það að við sjáum stafina, af því að blekið er svo gott að það hefur ekki fölnað á öllum þessum tíma, við skiljum orðin. Þegar Njáluhöfundur lætur Hallgerði segja við Gunnar: Tröll hafi þína vini. Þá vitum við alveg hvað hún meinar.“

Heimildaþátturinn Handritin – Veskú er á dagskrá RÚV klukkan 19:40 á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 22. apríl.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Möðruvallabók á þvælingi um Íslandssöguna

Innlent

„Gjörðu svo vel, Flateyjarbók“

„Ég segi að þetta sé sál Íslands“