Nemandi með COVID-19 smit í Vallaskóla á Selfossi

22.04.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Sveitarfélagið Árborg - Vallaskóli
Nemandi í 4. bekk Vallaskóla á Selfossi greindist með COVID-19 í gærkvöldi. Nemandinn mætti í skólann í gærmorgun en var sendur heim tæpri klukkustund síðar eftir að grunur kviknaði að hann gæti reynst smitaður.

Grunur kviknaði um að smit væri í nemendahópnum í byrjun vikunar, og voru nemendur í 2. og 4. bekk settir í úrvinnslusóttkví, en henni var aflétt á þriðjudagskvöld eftir að niðurstaða skimunar hjá nemendum sem grunur var um að væru smitaðir reyndist neikvætt. Því fór eðlilegt skólastarf fram í gær. 

Nemandinn sem greindist í gær var einkennalaus í skólanum en blandaðist við nemendur í tveimur list- og verkgreinahópum. 

„Staðfestur grunur um smit var þó ekki ljós fyrr en forráðamaður hafði samband við skólann 50 mínútum síðar. Var nemandinn þá umsvifalaust sendur heim,“ segir á vef skólans. Sunnlenska.is greindi fyrst frá. 

12 nemendur og 3 starfsmenn eru komnir í sóttkví vegna þessa en aðrir þurfa ekki að fara í sóttkví að höfðu samráði við smitrakningarteymi almannavarna. Einhver skerðing verður á skólastarfi á mið og efsta stigi á morgun, en skólinn verður sótthreinsaður hátt og lágt áður en skólinn hefst á morgun. 

Þá verður leikskólinn Álfheimar, sem stendur nærri Vallaskóla, lokaður á morgun vegna sóttkvíar og smita í starfsliði leikskólans.