Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Möðruvallabók á þvælingi um Íslandssöguna

Mynd: Kiljan / RÚV

Möðruvallabók á þvælingi um Íslandssöguna

22.04.2021 - 09:39

Höfundar

Bál tímans er barnabók sem fjallar um sögu Möðruvallarbókar, eins merkasta handrits Íslendingasagna. „Hún er svona Forrest Gump og þvælist í gegnum Íslandssöguna og er víða á lykilaugnablikum,“ segir Arndís Þórarinsdóttir höfundur bókarinnar.

Bál tímans kemur út þegar hálf öld er liðin síðan fyrstu miðaldahandritunum var skilað til Íslands eftir aldalanga dvöl í Danmörku. Arndís Þórarinsdóttir skrifar sögu Möðruvallabókar út frá öllum tiltækum heimildum en hún fékk einnig góða hjálp frá fræðimönnum. „Það þarf einhvern eins og mig, sem veit ekki neitt, til að detta það í huga að gera þetta. Fólk sem hefur helgað sig þessum rannsóknum, því þætti þetta alltof klikkað,“ segir Arndís í viðtali í Kiljunni á RÚV.

Handritið er sennilega ritað um 1330, en margt er enn á huldu um tilurð þess, hver hafi pantað það og hvar það var ritað. „Við vitum ekkert á hvaða þvælingi það var til 1628,“ segir Arndís, „þannig að ég þurfti svolítið að skálda í eyðurnar, þegar kom að því að ímynda mér hvaða svaðilförum handritið sem við höfum nú í okkar vörslu á melunum lenti í.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RÚV
Myndir bókarinnar teiknar Sigmundur B. Þorgeirsson.

Arndís hefur sjálf staðið fyrir framan handritið og segir það vera merkilega upplifun. „Að horfa á það og vita að einmitt þessi blöð fóru í gegnum hendur allra þessara nafnkunnu einstaklinga úr sögunni. Þetta eru svo ótrúlegar heimildir. Þessar sögur í handritunum hafa snert við fólki og skipt fólk máli.“

Í Báli tímans segir Möðruvallabók sjálf frá sögu sinni og lýsir Arndís verkinu sem skáldaðri sjálfsævisögu handritsins. „Ég reyni að fylgja henni frá ritun til okkar daga. Hún er svona Forrest Gump og þvælist í gegnum Íslandssöguna og er víða á lykilaugnablikum. Þannig að ég leyfi henni að vera í Hólaskóla strax eftir siðaskiptin og rekast þar á Guðbrand biskup.“

Tengdar fréttir

„Ég segi að þetta sé sál Íslands“

Innlent

Hornsteinn Húss íslenskunnar lagður síðasta vetrardag

Íslenskt mál

Handritin til barnanna og börnin til handritanna

Bókmenntir

„Börnum finnst ekkert leiðinlegt að lesa“