Bál tímans kemur út þegar hálf öld er liðin síðan fyrstu miðaldahandritunum var skilað til Íslands eftir aldalanga dvöl í Danmörku. Arndís Þórarinsdóttir skrifar sögu Möðruvallabókar út frá öllum tiltækum heimildum en hún fékk einnig góða hjálp frá fræðimönnum. „Það þarf einhvern eins og mig, sem veit ekki neitt, til að detta það í huga að gera þetta. Fólk sem hefur helgað sig þessum rannsóknum, því þætti þetta alltof klikkað,“ segir Arndís í viðtali í Kiljunni á RÚV.
Handritið er sennilega ritað um 1330, en margt er enn á huldu um tilurð þess, hver hafi pantað það og hvar það var ritað. „Við vitum ekkert á hvaða þvælingi það var til 1628,“ segir Arndís, „þannig að ég þurfti svolítið að skálda í eyðurnar, þegar kom að því að ímynda mér hvaða svaðilförum handritið sem við höfum nú í okkar vörslu á melunum lenti í.“