Jákvæðar horfur í viðræðum í Vín

22.04.2021 - 02:08
epa09147228 Iranian deputy foreign minister Abbas Araghchi (R) arrives for bilateral meetings for a JCPOA Joint Commission Iran talks meeting in Vienna, Austria, 20 April 2021. The Joint Commission of the Joint Comprehensive Plan of Action (JCPOA) at a Deputy Foreign Ministers and Political Directors' level is chaired on behalf of EU High Representative Josep Borrell, by the EEAS Deputy Secretary General Enrique Mora and is attended by China, France, Germany, Russia, Britain and Iran.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn hefur fært stjórnvöldum í Íran lista yfir þær viðskiptaþvinganir sem ríkið er tilbúið að aflétta við endurkomuna inn í kjarnorkusáttmála stórveldanna við Íran. AFP fréttastofan hefur þetta eftir hátt settum manni í Bandaríkjastjórn. 

Ríkin hafa átt í óbeinum viðræðum í Vín í Austurríki undanfarnar vikur. Öðru sinni var tekið hlé á viðræðunum, og nýtti Bandaríkjastjórn tímann til þess að deila upplýsingunum með Íran. Heimildamaður AFP segir betur farið í öll smáatriði varðandi þvinganirnar sem Bandaríkjastjórn telur að þurfi að aflétta til þess að komast aftur inn í sáttmálann. Auk þess er þar yfirlit yfir þær viðskiptaþvinganir sem Bandaríkjastjórn telur ekki nauðsynlegt að aflétta strax. Erfiðast telur heimildamaður AFP svo að verði að semja um þvinganir sem síðasta Bandaríkjastjórn lagði aftur á Íran, en tengjast ekki kjarnorkubrölti þeirra. 

Íranir hafa þrýst á Bandaríkjastjórn að aflétta öllum þvingunum sem stjórn Donald Trump lagði á ríkið eftir að hann dró Bandaríkin einhliða úr sáttmálanum árið 2018, áður en Íranir draga úr kjarnorkutilraunum sínum. Heimildamaður AFP segir samninganefndir Bandaríkjanna og Írans ekki hafa ákveðið hvort verður á undan. Hann segir Bandaríkin opin fyrir því að semja um hvernig farið verður að, á meðan bæði ríki eru í fullkominni sátt við niðurstöðuna.

Íranir harðneita því enn að setjast að sama borði og samninganefnd Bandaríkjanna. Evrópskir diplómatar hafa því gengið á milli nefndanna með tillögur þeirra. Hassan Rouhani, forseti Írans, greindi í gær frá því að viðræður hafi verið nokkuð jákvæðar. Hingað til hafi þær skilað um sextíu til sjötíu prósenta árangri að hans mati.