Hyggjast farga koldíoxíði í Straumsvík

22.04.2021 - 08:36
Hellisheiði - holutoppar og hreinsistöð í júní 2020
 Mynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson - Aðsend mynd
Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hyggst byggja móttöku- og förgunarmiðstöð fyrir koldíoxíð í Straumsvík. Markmiðið er að farga allt að þremur milljónum tonna á ári sem verður flutt hingað með skipum frá Norður-Evrópu. Carbfix var sett á fót árið 2007 og starfrækir stöð á Hellisheiði sem fangar um fjögur þúsund tonn af koldíoxíð úr lofti árlega og fargar.

Stjórnendur Carbfix segja í fréttatilkynningu að um 600 bein og afleidd störf skapist við uppbyggingu og rekstur miðstöðvarinnar. Í Fréttablaðinu í dag segir að kostnaður við verkefnið verði á bilinu 30 til 35 milljarðar króna. 

Undirbúningur að byggingu stöðvarinnar á að hefjast í ár með forhönnun og vinnu sem snýr að leyfum til starfseminnar. Stefnt er að því að hefja rannsóknaboranir á næsta ári og hefja rekstur árið 2025. Ekki er þó gert ráð fyrir að verksmiðjan verði fullbúin fyrr en árið 2030.

Segja óverulega hættu á finnanlegri skjálftavirkni

Hugmyndin á bak við starfsemina byggir á því að flytja koldíoxíð hingað til lands, leysa það upp í vatni og dæla djúpt í berglög þar sem það á að steinrenna á innan við tveimur árum. Þannig á að binda koldíoxíð varanlega. 

Talsvert var um jarðskjálfta við Hellisheiðarirkjun vegna niðurdælingar vatns fyrir um áratug, og fundust margir skjálftar, um þrír að stærð, á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Slíkt hefur gerst víðar. Stjórnendur Carbfix segja að búið sé að ráðast í forkönnun á skjálftahættu í nágrenni Straumsvíkur. Niðurstöður hennar séu að óveruleg hætta sé á skjálftavirkni sem fólk finni fyrir.