Fékk full laun þrátt fyrir að skrópa í vinnuna í 15 ár

22.04.2021 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: Robin Mercuri - Wikimedia Commons
Starfsmaður sjúkrahúss í borginni Catanzaro á Ítalíu er nú til rannsóknar fyrir að hafa skrópað í vinnuna í heil fimmtán ár. Allan þann tíma fékk maðurinn full laun.

Maðurinn er til rannsóknar vegna gruns um svik, fjárkúgun og misnotkun á aðstæðum. Þessi fimmtán ár sem hann mætti ekki til vinnu hlaut hann samanlagt um 538 þúsund evrur í laun, jafnvirði rúmlega 80 milljóna króna.  Sex stjórnendur sjúkrahússins eru einnig til rannsóknar í tengslum við málið að sögn fréttastofu BBC

Rannsókn þessa máls er liður í umfangsmeiri rannsókn á vinnuskrópi og mögulegum fjársvikum í opinbera geiranum á Ítalíu. Að sögn BBC var starfsmaðurinn í þessu máli opinber starfsmaður. Hann var skipaður í starf á sjúkrahúsinu árið 2005, þar sem hann lét víst aldrei sjá sig að sögn lögreglu. Hann er meðal annars sagður hafa hótað yfirmanni sínum öllu illu ef lögð yrði fram opinber kvörtun vegna fjarveru hans. Sá yfirmaður hætti síðar á sjúkrahúsinu að sögn lögreglunnar, og urðu eftirmenn hans eða mannauðsstjórn sjúkrahússins aldrei vör við fjarveru starfsmannsins. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV