Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin kröfuganga 1. maí en vonir um skrúðgöngu 17. júní

Mynd: RÚV / RÚV
Engin kröfuganga verður farin 1. maí, en hjá Reykjavíkurborg er vonast til að hægt verði að blása til skrúðgöngu 17. júní. Bjartsýni ríkir um að hægt verði að halda fjöldasamkomur síðsumars, en óvissan er enn talsverð.

Í fyrravor, þegar farið var að aflýsa alls konar árvissum viðburðum og fjöldasamkomum og mikil óvissa var um sumarhátíðirnar framundan, þá óraði eflaust fáa fyrir því að það sama yrði uppi á teningnum heilu ári síðar, en þannig er staðan engu að síður núna.

Hryllilegt að geta ekki komið saman í kreppu

„Það verður engin kröfuganga í ár,“ segir Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ. Hins vegar verði baráttudagskrá í sjónvarpinu um kvöldið eins og í fyrra. „ASÍ mun líka á 1. maí kynna sínar kosningaáherslur,“ segir Halla, sem sé í fyrsta sinn sem það verði gert með skipulögðum hætti svona snemma.

„Það er auðvitað svolítið hryllilegt til þess að hugsa að á sama tíma og við göngum í gegnum svona þunga og erfiða kreppu að fólk geti ekki komið saman og ráðið ráðum sínum og lagt fram kröfur sínar, en við gerum okkar besta á skrýtnum tímum, eins og allir,“ segir Halla.

Leita aftur í smiðju 17. júní frá í fyrra

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði var slegin af um páskana, Andrésar andar-leikunum á skíðum, sem venjulega eru á sumardaginn fyrsta, var aflýst, fyrir viku var tilkynnt að ekkert yrði af Fiskideginum mikla á Dalvík annað árið í röð, í gær var ákveðið að hætta við sjómannadagshátíðahöld í Reykjavík og óvissa er um hvort Sjóarinn síkáti, þriggja daga sjómannadagshátíð í Grindavík, fer fram – það verður þó aldrei með hefðbundnu sniði.

Næst þar á eftir á dagatalinu er 17. júní, hvernig skyldi hann verða í borginni?

„Við vitum það ekki enn þá,“ segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. „17. júní í fyrra var haldinn undir ströngum samkomutakmörkunum en samt sem áður vorum með ýmsa viðburði og við höfum fengið þau skilaboð að það hafi nú verið skemmtilegasti 17. júní í manna minnum,“ segir Arna.
Þannig að þið munið leita í þá smiðju aftur, sama hvernig fer?
„Algjörlega. Það þarf ekki alltaf allt að vera eins og það hefur verið í 100 ár.“
En verður skrúðganga?
„Það fer bara eftir takmörkunum, en ef það má þá geri ég ráð fyrir að þær verði haldnar.“

Bjartsýni fyrir seinni hluta sumars

Bjartsýnin eykst enn þegar kemur að viðburðum síðar í sumar. Ungmennafélag Íslands hefur ákveðið að hætta við þúsunda manna íþróttaveislu í Kópavogi í júní, en þar stefnir fólk ótrautt á unglingalandsmót um verslunarmannahelgina og landsmót 50 plús í lok ágúst.

Aðstandandendur tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði Eystra eru í startholunum og vona það besta, og það sama er að segja um þjóðhátíðarnefndina í Eyjum – þar verður fundað um framhaldið eftir helgi en fólk er bratt eftir yfirlýsingar stjórnvalda í vikunni.

Hinsegin dagar verða haldnir með einhverju sniði og þar á bæ standa vonir til að gleðigangan sjálf geti orðið. Og svo er það menningarnótt, og þá á að vera búið að bólusetja flesta, ef ekki alla landsmenn yfir 16 ára aldri.

„Þannig að þá kannski verður bara rosa flott partí hérna í miðborginni,“ segir Arna Schram.